Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, maí 07, 2008

Meðvirki kennarinn

Fyrir allnokkru tók ég þá ákvörðun að sækjast ekki eftir endurráðningu í öðrum skólanum sem ég kenni í. Ástæða þess er einföld - þegar ég hóf þar störf síðastliðið haust tók launadeildin í bæjarfélaginu upp á því að vefengja framhaldsnámið mitt á þeim forsendum að 8. stigið sem ég tók áður en ég fór út væri ekki sambærilegt við burtfararpróf. Launanefnd sveitarfélaga á reyndar eftir að bíta úr nálinni með það enda víóluskrímslið komið í samninganefnd FT - en staðreyndin er engu að síður sú að mér er nú borgað eins og ég hefði klárað kennaradeild í Tónó og aldrei farið neitt, þrátt fyrir að hafa eytt 4 og hálfu ári í útlandinu við nám og störf. Það er aldeilis gaman þegar maður er metinn svona vel að verðleikum.

Þrátt fyrir að staðan virtist borðleggjandi og ég löngu búin að tilkynna viðkomandi skólastjóra um ákvörðun mína veittist mér erfitt að segja nemendum mínum frá þessu og sló ég því vísvitandi á frest. Því lengur sem ég beið stækkaði kvíðahnúturinn í maganum og hjartað tók kipp í hvert sinn sem nemandi sagðist hlakka til að halda áfram hjá mér næsta skólaár. Loks hjó skólinn á hnútinn þegar hann sendi út lista yfir kennara skólans næsta skólaár. Nafnið mitt var ekki á listanum.

Ég brá við skjótt og sendi foreldrunum póst. Í dag gerði ég svo hreint fyrir mínum dyrum við börnin. Nokkur lítil augu fylltust tárum þegar ljóst varð að við yrðum ekki saman næsta skólaár. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Meðvirki tónlistarkennarinn íhugaði meira að segja að hætta við að hætta og halda áfram að passa dýrmætu fiðlubörnin sín. Það ástand varði þó ekki lengi. Víst eru nemendur mínir yndislegir en maður verður að standa með sjálfum sér.

Vilji maður vera metinn að verðleikum þarf maður að standa með sjálfum sér. Það ætla ég að gera. Launanefndin á von á góðu í haust.


Víóluskrímslið - skerpir klærnar

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott hjá þér!!!! Kv.Sirrý