Borg dauðans
Ég er komin aftur í bæinn. Ég hefði alveg verið til í að vera lengur fyrir vestan, en skyldan kallar. Það er óhætt að mæla með mörgu á sunnanverðum Vestfjörðum, þó mér skiljist á heimafólki að það hafi verið annar og betri bragur á bæjarlífinu í plássunum fyrir 10 árum. Hvað sem því líður fá sundlaugarnar á Patró og Tálknafirði hæstu einkunn. Finni maður enn fyrir vöðvabólgu eftir gott pottasund er upplagt að skella sér til Sollu nuddara á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar sem er flestum færari í sínu fagi. Völlurinn, nýr veitingastaður rekinn í gamla flugvallarhúsinu á Patreksfirði fær sérstök meðmæli BOTNLAUSA GÍMALDSINS fyrir stóra og mikla skammta á afar góðum prís. Risastóra súkkulaðikökusneiðin sem við dr. Þórarinn fengum þar okkur nánast að kostnaðarlausu mun lengi í minnum höfð.
Á Hnjóti er skemmtilegt safn um alvöru fólk og lífsbaráttu þess auk þess sem gamlar flugvélar fullar af kindaskít prýða svæðið. Upplagt fyrir þá sem alltaf hefur langað að vita hvernig rússneskar flutningaflugvélar litu út að innan. Í Selárdal eru mórauðar og svartar kindur sem leggjast til svefns úti á miðjum vegi og merkilegir staðir, þar sem safn Samúels í Selárdal ber hæst. Það er búið að mála ljónin í gosbrunninum og setja á þau veiðihár, nokkuð sem gladdi mitt litla hjarta.
Auk þessa gerðist það að ég keyrði bíl frá Patreksfirði til Bíldudals án þess að stofna neinum í bráða hættu. Það þótti mér merkilegt.
Nú er ég komin í bæinn með kvef á byrjunarstigi, þökk sé dr. Þórarni og öllum krökkunum á sunnanverðum Vestfjörðum sem hafa eytt sumrinu í að hósta framan í hann.
Ég fer út á mánudag. Þeim sem vildu minnast mín er bent á gemsann minn. Þeir taki til sín sem eiga.
Víóluskrímslið - góðu vant
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli