Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Að halda haus

Eftir að ég fór að kenna varð mér ljóst að mér hafði verið veitt gríðarlegt vald yfir nemendum mínum og að ég bæri ábyrgð eftir því. Ég segi vald, vegna þess að góður kennari getur haft gríðarleg áhrif á líf barns sem hann kennir. Sem kennari reyni ég að vera börnunum góð fyrirmynd. Ég krefst gagnkvæmrar virðingar í tímum, er föst fyrir en sanngjörn og hækka aldrei róminn nema til þess að hrósa fólki. Auk þess passa ég alltaf að það sjáist ekki framan í mér hvað ég borðaði í hádeginu.

Stundum getur verið erfitt að halda ímynd hins alvitra kennara fyrir framan blessuð börnin. Ekki síst ef eitthvað stórkostlegt veltur upp úr þeim. Eins og í gærkvöldi, þegar ég var að sýna litlum forvitnum snáða hvernig taktmælir virkar. Ég byrjaði á að sýna honum hvernig taktmælirinn sló 60 slög á mínútu og leyfði honum svo að finna út hversu hratt hjartað í honum slægi. Drengurinn stillti svo taktmælinn á 208 slög á mínútu. "Getur einhver verið með svona hraðan hjartslátt?" spurði hann. Ég svaraði því játandi, en bætti við að væri viðkomandi í kyrrstöðu þætti mér skynsamlegast að fara með hann á sjúkrahús. Annars hugar hélt snáðinn áfram að skrúfa til stillinn á taktmælinum og hitti þá á stillinguna sem gefur tóninn A440. (Fyrir þá sem ekki til þekkja hljómar þessi tónn eins og flöt lína á hjartalínuriti.) Hann leit upp og sagði alvarlegur: "Nú held ég að það sé of seint."

Stundum getur líkaminn einnig brugðist manni í baráttunni við virðuleikann. Aðfaranótt mánudags fékk ég kveisu sem hefur verið að ganga meðal krakkanna. Eitilhörð hélt ég á mánudegi að það versta væri liðið hjá og ákvað að drífa mig út í Varmahlíð. Fyrsti tíminn gekk vel. Sá næsti líka. Í þriðja tíma var farið að síga á ógæfuhliðina og í fjórða tíma var ég farin að biðja vesalings nemandann heldur oft að "hita nú upp næsta lag á meðan ég skryppi aðeins fram". Eftir nokkur órómantísk faðmlög við Gustavsberg ákvað ég að fara heim. Það var skynsamleg ákvörðun.

Svona verður maður stundum að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Víóluskrímslið - rússíbani

1 ummæli:

Sigrun sagði...

Sæl Anna.
Hér er á ferðinni stalla þín Sigrún frá Helsinki. Rakst á síðuna þína fyrir nokkru síðan og vildi bara kvitta í gestabókina. Þetta er alveg hreint ótrúlega skemmtileg síða, sem yljar mér svo sannalega hérna í frosthörkunum fyrir austan. Þú hefur ekki hugsað þér að starfa við skriftir?
Terveisia Helsingista
Sigrún