Skólinn er byrjaður aftur. Þessa vikuna hef ég ekki haft undan því að óska nemendum, foreldrum og kollegum gleðilegs árs. Sú ósk er borin fram af heilum hug þó meðfædd bjartsýnin hafi orðið fyrir skakkaföllum undanfarið - og skyldi engan undra.
Þó ég sé með afbrigðum jákvæð að eðlisfari og líti yfirleitt á erfiðleika sem áskorun hefur þjóðfélagsástandið óneitanlega áhrif á sálarlífið. Stundum líður mér eins og dauðvona manni sem finnur að endirinn nálgast án þess að fá á því nokkra staðfestingu. Læknar hafa talað við aðstandendur en komist að samkomulagi um að sjúklingnum skuli ekki sagt neitt enda sé engin von um bata og óþarfi að eyðileggja síðustu dagana fyrir manninum.
Forsendur þess að geta tekist á við erfiðleika er sú, að vita við hvað er að etja. Þrátt fyrir stanslausan fréttaflutning af niðurskurði, hreppaflutningum, ærumissi þjóðarinnar og skuldasöfnun er ég litlu nær. Umfang vandans er mér enn sem lokuð bók, þökk sé þeim sem ekki kæra sig um að upplýsa almenning um stöðu hans. Hversu mikill er vandinn? Hversu miklu verðum við látin blæða til þess að bjarga aumingjunum sem settu allt á hausinn? Hversu háir verða vextirnir? Hversu langan tíma tekur að borga það upp? Er þjóðin yfirhöfuð fær um að borga?Hverjar eru afleiðingarnar? Hver er tryggingin fyrir því að allt fari ekki á sama veg? Hversu lengi hefur verið logið að okkur? Hversu miklu hefur verið logið að okkur?
13 laugardaga í röð hef ég mætt niður á Austurvöll með nær áttræðri ömmu minni til þess að gera hróp að þeim sem eyðilögðu það Ísland sem hún hjálpaði til við að byggja upp - það Ísland sem mín kynslóð átti að taka við. Við stöndum þarna saman og kreppum hnefana í þögulli reiði sem rennur í gegnum æðarnar eins og bráðinn málmur. Þetta eru ekki spennandi og skemmtilegir tímar fyrir þorra almennings. Það er ekkert skemmtilegt við óvissu og ótta.
Öllum þeim sem taka manngildi fram yfir verðgildi og láta sér annt um náunga sinn óska ég gleðilegs árs.
Hinir, sem enn þrífast í fornaldarmyrkri græðgi og siðblindu - mega éta skít.
Víóluskrímslið - brettir upp ermarnar
Engin ummæli:
Skrifa ummæli