Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, apríl 12, 2008

Vor innri víkingur

Í dag fékk yngri strengjasveitin í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar góða gesti, strengjasveitir frá Allegro Suzukiskólanum og Tónlistarskóla Kópavogs. Það var spilað og borðað til skiptis í heilan dag og allir skemmtu sér hið besta.

Í hádeginu skrapp allur hópurinn (tæplega 50 krakkar) út að skoða víkingaskipið Íslending sem stendur á Fitjunum svokölluðu í milli Njarðvíkanna tveggja. Skemmst er frá því að segja að sú ferð vakti stjórnlausa lukku. Hægt er að fara upp í skipið, standa uppi í stafni og þykjast stýra dýrum knerri og velta því fyrir sér að halda til hafnar, höggva mann og annan.

Þegar börnin voru komin upp í skipið var eins og á þau rynni æði. Litlar stúlkur æddu fram í stafn og hvöttu stallsystkin sín til blóðugra ofbeldisverka. Drengir í stígvélum fylltust hetjumóði og hjuggu til ímyndaðra óvina með ósýnilegum sverðum. Barn í blúndukjól froðufelldi af leikrænum vígamóði, urraði af víkinglegri grimmd og hótaði leikbræðrum sínum öllu illu hættu þeir ekki að efast um hennar stöðu á skipinu, hún væri víst víkingur þó hún væri í kjól.

Seinna um daginn héldu þessi sömu börn tónleika og spiluðu eins og englar. Það var kannski eitthvað við skipið, ég veit það ekki.


Víóluskrímslið - ÁRÁS!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Krakkar eru kúl, svona mestanpartinn.

Annars fékk ég einmitt athugasemd um þennan hitting í dag, pabbi annars bassastráksins skildi eiginlega ekki hvers vegna þeir voru ekki notaðir meira, biðu megnið af tónleikunum án þess að fá að spila. Hefði mátt kópíera eitthvað af sellónótum handa þeim til að spila :)