Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, ágúst 27, 2004

Út í heim

Eftir örfáa daga stökkvum við litla systir upp í einokunarvél á vegum Flugleiða og fljúgum á vit H-lands. Þaðan förum við guð veit hvernig til Þýskalands þar sem málhalt víólskrímsl mun reyna að dusta rykið af menntaskólaþýskunni á börum borgarinnar meðan litla systir þarf að standa í röðum marga klukkutíma á dag til þess að fá nafn sitt inn í borgarregistur Berlínar.

Sumarið er á enda runnið - og það er súrt enda gott sumar með afbrigðum. Það tókst að byggja bráðabirgðakamar, ferðast um landið, vaka næturlangt á vöktum á lúsarlaunum, borða mikið kjöt fisk og ótrúlegan haug af nammi, lóðsa Finna um næturlíf Reykjavíkurborgar, fara á draugasafnið, hanga með ömmu, hitta fjölskyldu og flesta vinina, sjá á eftir æskuvinum í hjónaband án tilteljandi stóráfalla og svo mætti lengi telja. Það eina sem mér hefur ekki tekist að koma í verk er að bjóða völdum aðilum í kaffi eitt kvöldið. Taki þeir til sín sem eiga.

Útlegðin er við það að hefjast á ný. Víólskrímslið er snúið aftur, argt sem aldrei fyrr! Lesið allt það nýjasta frá H-landi á þessari síðu. Útlendingaeftirlitið fær án efa sinn skerf af öskrum og blóti enda er enn og aftur búið að skipta um stefnu á þeim bæ og enginn veit í raun hvernig allt á að virka.

Sjáumst.

Víóluskrímslið - í startholunum


Engin ummæli: