AÐ HANDAN

Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, maí 10, 2009

Fuglaflensan

Þegar ég var að keyra heim um daginn var á undan mér bíll með einkanúmerið H5N1. Það fannst mér ógeðslega fyndið.

Lítið er ungs manns gaman.


Víóluskrímslið - nörd

mánudagur, apríl 27, 2009

Tuð

Mitt óflokksbundna sjálf kaus á móti stóriðjustefnunni síðastliðinn laugardag. Það var því lítið glatt hjarta sem lagðist til svefns á sunnudagsmorgun um það leyti sem dr. Tót var á leið á vakt.

Illu heilli virðist þó gleði mín ætla að verða skammvinn því varla er búið að telja upp úr kjörkössunum en karpið hefst á nýjan leik.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar - eftir að hafa dvalið langdvölum í Evrópusambandslandi, nóta bene - að tafarlaus aðild eigi ekki eftir að bjarga nokkrum sköpuðum hlut í sjálfu sér. Eins finnst mér takmarkað að ætla að sækja um aðild á meðan allt er hér í kaldakoli. Svolítið eins og að mæta í mikilvægt atvinnuviðtal þunnur, í drullugallanum og með ælu í hárinu.

Hins vegar er ég nokkuð viss um að við komumst ekki hjá því að standa utan ESB þegar til lengri tíma er litið. En mikið vildi ég að stjórnvöld bæru gæfu til þess að hugsa framávið, skipuleggja sig, búa til plan, upplýsa almenning og gera góðan díl með hliðsjón af hagsmunum Íslendinga áður en til þess kemur.

Og byrja á því að taka til heima hjá sér, takk.


Víóluskrímslið - ekkert helv...óðagot

fimmtudagur, apríl 16, 2009

50 millur

Það þýðir lítið að kenna meintum spunameisturum sitjandi ríkisstjórnar um þessar 50 millur sem villtust inn í bókhald Sjálfstæðisflokksins á óheppilegum tíma.

Þegar menn sjá um bommerturnar sjálfir þarf enga spunameistara til.

Víóluskrímslið - væri alveg til í svoleiðis

þriðjudagur, mars 31, 2009

Hugartengsl

Á leið minni í vinnuna í gærmorgun hlustaði ég á tónlistina úr Stjörnustríðsmyndunum í góðum nördafíling. Þegar kom að Svarthöfðamarsinum margfræga fór ég allt í einu að hugsa um Davíð Oddsson.

Það hljóta að teljast bein hugsanatengsl.

Víóluskrímslið - óskar sjálfstæðismönnum til hamingju með stjórnvisku leiðtoga síns

miðvikudagur, mars 25, 2009

Helvítis kötturinn étur allt og hann bróður minn líka

Kettirnir okkar eru ekki vandfýsnir á mat. Í raun mætti segja að þeir ætu allt sem að kjafti kemur - eða gerðu að minnsta kosti heiðarlega tilraun til þess. Upp á síðkastið hefur borið á töluverðri ævintýramennsku í vali þeirra á hlutum sem leggja má sér til munns - við mismikla hrifningu heimilismanna.

Á síðustu tveimur vikum hefur horfið ofan í þá

allt það sem fellur á gólfið við eldamennsku
muffinsbréf
horn af Fréttablaðinu
kveikur úr olíulampa
pallíettuskraut af ullarslá
vænn biti af sömu ullarslá
og
bróðurparturinn af pappakassanum utan um kattasandinn.

Eftir pallíettuslysið biðum við í ofvæni eftir því að þær skiluðu sér útum annan endann á sökudólgnum. Enn hafa þær þó ekki látið á sér kræla, að minnsta kosti ekki með óyggjandi hætti. Ekki virðist allt óætið fara illa í þá bræður nema síður sé. Enn eru þeir kelnir um daga og kátir um nætur. Þó verður að viðurkennast að hér á heimilinu er nú oftar gengið frá en áður tíðkaðist. Það hlýtur að teljast jákvætt.


Víóluskrímslið - pissukeppni á Alþingi? Nei, þá segir maður frekar frá köttunum sínum.

þriðjudagur, mars 17, 2009

Svona á að skapa þjóðfélagsþegn

Í gærkvöldi kíkti ég í heimsókn til þeirra viðkvæma fræðimannsins og bleika drekans en þau eignuðust myndarlegt stúlkubarn fyrir skemmstu.

Stúlkan, sem í móðurkviði fékk vinnuheitið fræðlingurinn, er fríð og gáfuleg sýnum og verður áreiðanlega prýðis forsætisráðherra þegar hún verður stór.

Í það minnsta veit hún hvað hún vill og er óhrædd við að láta heyra í sér gangi það ekki eftir.


Víóluskrímslið - hamingjuóskir

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Veruleikaflótti

Ég er ein þeirra sem myndi ekki sýta það þó þingflokkum Sjálfstæðis og Framsóknarflokks væri sökkt út af Reykjanesi í gjaldþrota Eimskipsgámi. Myndi jafnvel velja nokkra góða utan þings til þess að bæta í gáminn.

Þó ég sé kennari og hugsi í lausnum þykir mér oft erfitt að sjá til sólar þessa dagana, þökk sé ofangreindum gámakandídötum. Þá er gott að flýja veruleikann um stund, lesa góða bók (eða vonda) skoða gamlar myndir (fann eina af dr. Tót síðan 2002, mikið hlegið á heimilinu) stinga nefinu í kattarbelg (nóg af svoleiðis heima hjá mér) eða læra ný grip á úkúleleið mitt (að glamra á úkúlele er góð skemmtun).

Svo má líka borða mikinn lakkrís. Eða ryksuga ganginn. Eða ekki.

Víóluskrímslið - heldur dauðahaldi í geðheilsuna

sunnudagur, febrúar 15, 2009

Nýtt Ísland, nýtt hár

Í fyrri viku gerði ég mér ferð á hárgreiðslustofu hér í borg og lét klippa af mér allt hárið. Sú aðgerð tóks afbragðsvel. Fyrir utan það hversu þægilegt það er að skarta drengjakolli er ekki síður gaman að líta sitt gamla sjálf í spegli á ný.

Fyrir utan klippinguna miklu hefur fátt markvert gerst þessa vikuna enda lagðist ég í pest sem dr. Tót færði mér af LSH. Af hennar völdum dró mjög saman í þjónustu við gæludýrin á heimilinu - sem hissa og ringluð minntu skyndilega meira á Sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu en ég kæri mig um að nefna.

Upp er boðið Ísaland og á morgun ætla ég í vinnuna eins og Davíð Oddsson hyggur vafalaust á að gera. Munurinn á okkur er hins vegar sá að mín bíða ekki mótmælendur í lögreglufylgd þegar ég geysist inn um dyrnar.

Víóluskrímslið - byggir upp æsku landsins

föstudagur, febrúar 06, 2009

Tónlistarsmekkur

Sumir halda því fram að kettir séu skynlausar skepnur. Þeir sem búa með einum eða fleiri slíkum vita að það er fjarri sanni.

Þeir hafa meira að segja mjög ákveðinn tónlistarsmekk.

Kettirnir okkar eru þar engin undantekning. Þegar plata er sett á fóninn eða annað okkar býst til þess að fara að æfa sig eru þeir komnir á nóinu, setjast á gólfið og fylgjast með af athygli. Líki þeim tónlistarflutningurinn leggjast þeir undir píanóstólinn og mala. Ef tónlistin fellur ekki í kramið ruslast þeir vælandi um stofuna, reyna að fella nótnastatífið og taka Batmanstökk upp á bakið á manni. Það er ekki þægilegt.

Eftir nokkrar vísindalegar tilraunir hef ég komist að því að köttunum líkar vel við flest sem samið er fyrir árið 1850. Eftir það fer að síga á ógæfuhliðina. Hindemith er án efa það tónskáld sem þeim er einna verst við. Philip Glass er heldur ekki hátt skrifaður. Ekki heldur Penderecki, Lutoslawski eða Prokofiev.

Það er því nokkuð ljóst að kettirnir verða lokaðir reglulega inni í svefnherbergi næstu vikur. Á statífinu er nefnilega bæði Hindemith sónata og Reger svíta sem lærast skulu á næstu vikum. Það er vandlifað.


Víóluskrímslið - mit bizarrer plumpheit

laugardagur, janúar 31, 2009

Njála

Illt er að eiga þræl að einkavin sagði amma í dag og vísaði þar til Framsóknarflokksins. 


Það er sko ekkert lát á snöfurmannlegum stjórnmálaskýringum í minni fjölskyldu.


Víóluskrímslið - ber er hver að baki