Stórfréttir
Þegar maður er í sumarfríi (sem samanstendur af vinnu, áti og svefni og hektískum tilraunum til þess að hitta alla þá sem manni þykir vænt um, helst alla í einu)bloggar maður ekki nema um stórfréttir séu að ræða.
Eins og í dag.
Undanfarna daga hefur reyndar ýmislegt fréttnæmt gerst, þó fátt nái þeim status að teljast stórfrétt. Það væri þá helst neitun tónlistarsjóðs við styrkumsókn minni sem ég fékk í pósti í gær. Enda öskraði ég af réttlátri reiði alla leiðina í vinnuna í gærkvöldi. Sem betur fer var ég á hjóli og lítil umferð.
Nei, stórfrétt dagsins á sér aðra og gleðilegri sögu.
Í DAG FÓR ÉG Í FYRSTA BÍLATÍMANN MINN
Anna Hugadóttir víóluskrímsl, sem hingað til hefur verið stikkfrí í ökuferðum um landið, sem aldrei hefur þurft að sækja nokkurn mann á fyllerí (bögglaberi á hjóli ekki meðtalinn) eða skutla fólki út á völl hefur hafið ökunám. 10 árum á eftir áætlun. Betra er seint en aldrei.
Ekki drap ég nokkurn mann í þessum fyrsta ökutíma mínum. Né heldur drap ég á bílnum. Það þótti mér afar skemmtilegt.
Hins vegar flissaði ég allan tímann.
Hollendingurinn
Gerben litli bróðir er farinn heim eftir mikla ævintýraferð þar sem hæst bar að hans mati leik fjögurra sela milli jakanna við Jökulsárlón (en sætt). Ég gekk næstum því frá hans hollenska sjálfi með því að fara með hann Fimmvörðuháls. Samt tókum við leiðina á tveimur dögum. Þegar við vorum komin upp að Baldvinsskála og hann sá hversu langt var í skála Útivistar þar sem við ætluðum að gista um nóttina rak hann upp ramakvein, lýsti því yfir að Íslendingar væru geðveikir masókistar og það ætti að setja upp rúllustiga og kláfferjur á hálendið svo venjulegt fólk gæti komist leiðar sinnar án þess að drepa sig. Það fannst mér rottufyndið. Ennþá fyndnari fannst mér svipurinn á drengnum þegar hann átti að fara að handstyrkja sig í keðju niður Heljarkamb.
Þó skildi hann, þegar við fórum malarborinn hringveginn austanlands nokkrum dögum síðar, að hér eru aðrir hlutir meira aðkallandi en að setja uppp kláfferjur á hálendinu fyrir lofthrædda ferðamenn í slæmu gönguformi.
Víóluskrímslið - á faraldsfæti
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli