Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, nóvember 10, 2006

Ble

Eftir stífa viku er fátt ljúfara en að liggja endilangur í sófanum með andfúlan lánskött í handarkrikanum og glápa á arfaslappar hryllingsmyndir í sjónvarpinu - með hollenskum texta.

Síðustu viku var ég hluti af hóp sem æfði upp nokkur nútímaverk af ýmsum toga sem á að flytja á tvennum tónleikum á nútímatónlistarhátíðarinni November Music í næstu viku. Eitt verkanna er samið fyrir víólu,píanó og marimbu og er því ætlað að vera "fyndna,skrítna og skemmtilega verkið sem sendir áheyrendur út með bros á vör". Sá galli er þó á gjöf Njarðar verkið er rottuerfitt og tónskáldið skilaði því ekki inn fyrr en síðastliðinn mánudag. Þar sem ég hef hvorki tíma né nennu til að æfa flausturslega skrifað verk útdritað í leifturhröðum tvígripum og hlaupum er ég að hugsa um að búa bara til mína eigin notendavænu versjón af stykkinu. Piltungurinn sem skrifaði það getur sjálfum sér um kennt að skila inn stykki sem þarf mánuð til að ná inn með viku fyrirvara.

Veturinn er kominn og feldurinn hefur verið dreginn fram úr skápnum. Ofninn á fullu blússi og kakó í potti á eldavélinni. Lánskötturinn fúngerar sem lifandi hitapoki. Manni líður bara allt of vel til að hafa áhyggjur af einhverju svonalöguðu. Samt verð ég voða glöð þegar næsta vika er búin.


Víóluskrímslið -sörvæval

Engin ummæli: