Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, maí 28, 2008

Grand Theft Auto

Ég er ein þeirra sem þrjóskast við að aka um á löglegum hraða. Fyrir því eru nokkrar vel ígrundaðar ástæður.

1) Hraðakstur er ólöglegur. Ég hef hvorki efni á né löngun til að borga tugþúsundir króna í hraðasektir né missa prófið fari svo að löggan standi mig að verki.
2) Íslenskir vegir eru ekki byggðir fyrir hraðakstur. Dettur einhverjum í hug að bera saman þjóðveg 1 þar sem ekki einu sinni er búið að malbika hringinn og þýska autobana? Ekki mér.
3)Ég vil eiga betri séns á að bregðast við óvæntum uppákomum á veginum. Það er auðveldara á 90 km/klst en 140 km/klst.
4)Litli Rauður myndi springa í loft upp ef ég reyndi að þenja hann mikið yfir hundraðið.

Ég er tillitsamur ökumaður, ek hægra megin, gef alltaf stefnuljós og hleypi framúr mér hvenær sem tækifæri gefst til. Þannig tryggi ég að kransæðastíflaður forstjóri á fínum jeppa fari ekki á límingunum yfir því að þurfa að keyra á eftir Litla Rauð, of seinn sendibílstjóri komist í verkefni aðeins 20 mínútum of seint í stað 23 og að verkefnum hlaðin ofurkona komist að ná í krakkana í skólann áður en mætt er í ræktina, hráfæðisnámskeiðið og sjálfstyrkingarfélagskapinn. Opinberir eðalvagnar með blikkandi ljós fá sjálfsagðan forgang.

Þrátt fyrir þessa tillitsemi mína kemur það fyrir að erfitt er að hleypa bílum framúr sér. Bregða þá margir á það ráð að keyra svo fast upp að rassgatinu á Litla Rauð að maður sér augnlit viðkomandi ökumanns í baksýnisspeglinum. Með þessu móti vilja þeir fá mig til þess að aka hraðar. Auðvitað reyni ég að kom til móts við þetta fólk enda myndi ég valda þeim óbætanlegum andlegum skaða ef ég gerði það ekki. Að aka 10 km yfir hámarkshraða virðist oftast veita nokkra fróun og fegnir eru menn þeirri stund þegar mér tekst loks að hleypa þeim fram úr mér. Það hefur þó ósjaldan komið fyrir að sá fögnuður breytist í gremju, einkum ef löggan bíður hinum megin við hæð eða beygju.

Ég velti því oft fyrir mér af hverju við erum alltaf að flýta okkur svona mikið. Hverju máli skipta þessar örfáu mínútur sem vinnast með því að stíga allt í botn, liggja á flautunni og spæna upp íbúðahverfi á ofsahraða? Ég geri mér fulla grein fyrir því að það geta skapast aðstæður þar sem hraðakstur er nauðsynlegur - en þá er bara að skella koddaveri eða klósettrúllu út um gluggann svo allir sjái að þar sé neyðarakstur á ferð. Tengdapabbi, sem hefur séð ýmislegt misjafnt á gjörgæslunni síðustu áratugi hefur haft á orði að betra sé að vera 5 mínútum of seinn en að vera 50 ár í hjólastól. Það held ég sé nákvæmlega málið. Ekki nenni ég að liggja á flautunni lendi ég fyrir aftan gamlan kall með hatt á ljósum. Það skilar nákvæmlega engu - nema þá kannski helst að kallinn fái hjartaáfall og maður komist ekki af ljósunum fyrr en sjúkrabíllinn er búinn að athafna sig.

Slökum á.

Víóluskrímslið - max 100

sunnudagur, maí 25, 2008

Kartöflur

Fyrir nokkrum vikum vorum við dr. Tót að taka til í eldhúsinu. Ég var hálf inni í skáp að leita að týndum potti þegar dr. Tót fann kartöfluútsæðið sem ég var búin að fela vandlega í dimma horninu við hliðina á ísskápnum. Dr. Tót fannst vel spírað og lint kartöfluútsæðið viðbjóðslegt og heimtaði að fleygja því. Það var að sjálfsögðu ekki gert enda bað ég kartöflunum griða á þeim forsendum að um háþróaða tilraun væri að ræða. Vísindaleg rök virka iðulega við slíkar aðstæður.

Í dag gerðum við pabbi okkur ferð austur á ættaróðalið þar sem við stungum upp lítið beð, blönduðum það illa fengnum sandi og muldum í það þurrt hrossatað í blíðunni. Þegar okkur þótti nóg að gert settum við kartöflurnar niður og hlúðum ástúðlega að brothættum spírunum í moldinni. Að lokum vökvuðum við beðið með nýrunnu lindarvatni.

Nú bíð ég spennt eftir fyrstu grösunum. Heppnist þessi hávísindalega tilraun mín bætum við rófum við næst.


Víóluskrímslið - ár kartöflunnar

miðvikudagur, maí 21, 2008

Kynslóðabilið

Þeir sem hafa yndi af sundi vita vel að best er að fara að synda upp úr hálf ellefu á morgnana. Þá eru laugarnar hálftómar enda hádegistraffíkin ekki hafin og fastagestirnir yfirleitt farnir.
Þá er dýrlegt að eiga heila braut útaf fyrir sig og geta synt baksund án þess að hafa áhyggjur af því að vera fyrir einhverjum - eða, eins og stundum gerist, berja einhvern í rassinn því maður sér hann ekki.

Í gær gerði ég mér ferð í Laugardalslaug eins og oft áður. Þrátt fyrir að aðstaðan þar megi muna sinn fífil fegri þykir mér best að synda í 50 metra laug og hana er þar að finna. Í gær fór ég í sund á uppáhaldstímanum mínum og þegar ég lauk við að synda fór ég í nuddpottinn - sem virkaði í gær mér til mikillar gleði.

Nuddpotturinn var fullur af vel snyrtum frúm um sextugt. Þarna voru á ferð fulltrúar þjóðfélagshóps sem sést varla lengur á Íslandi, konum úr vel stæðum fjölskyldum sem voru aldar upp með það að markmiði að giftast vel og eignast snyrtileg og vel greidd börn. Umræðurnar báru vitni um heim sem er flestum lokaður, þar á meðal mér. Ein af annarri báru þær sig illa yfir viðhaldi og þrifum á heljarstóru einbýlishúsi, garðavinnu og limgerðaklippingum. Einnig fylgdi sögunni að ómögulegt væri að fá iðnaðarmenn á sumrin til sumarhúsabygginga og næðist í þá mættu þeir iðulega bæði seint og illa. Allar kvörtuðu þær yfir vinnuálagi á eiginmönnum sínum og því að þeir sæjust varla heima. Ein og ein lumaði á krassandi kjaftasögu um skilnað vinkonu sem ekki var mætt í pottinn. Mælt var með snyrtistofum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og því að versla í Hagkaup frekar en Bónus því þar væru færri Pólverjar á kassanum.

Ég sat þarna þögul og lét vatnið bylja á aumum víóluleikaraöxlum á meðan þær létu dæluna ganga og hugsaði með mér að þökk sé kvennabaráttunni mun ég hafa margt annað að spjalla um í heitapottinum þegar ég verð sextug. Ég kemst ekki hjá því að finnast ég vera afar heppin manneskja.

Víóluskrímslið - áfram stelpur

miðvikudagur, maí 07, 2008

Meðvirki kennarinn

Fyrir allnokkru tók ég þá ákvörðun að sækjast ekki eftir endurráðningu í öðrum skólanum sem ég kenni í. Ástæða þess er einföld - þegar ég hóf þar störf síðastliðið haust tók launadeildin í bæjarfélaginu upp á því að vefengja framhaldsnámið mitt á þeim forsendum að 8. stigið sem ég tók áður en ég fór út væri ekki sambærilegt við burtfararpróf. Launanefnd sveitarfélaga á reyndar eftir að bíta úr nálinni með það enda víóluskrímslið komið í samninganefnd FT - en staðreyndin er engu að síður sú að mér er nú borgað eins og ég hefði klárað kennaradeild í Tónó og aldrei farið neitt, þrátt fyrir að hafa eytt 4 og hálfu ári í útlandinu við nám og störf. Það er aldeilis gaman þegar maður er metinn svona vel að verðleikum.

Þrátt fyrir að staðan virtist borðleggjandi og ég löngu búin að tilkynna viðkomandi skólastjóra um ákvörðun mína veittist mér erfitt að segja nemendum mínum frá þessu og sló ég því vísvitandi á frest. Því lengur sem ég beið stækkaði kvíðahnúturinn í maganum og hjartað tók kipp í hvert sinn sem nemandi sagðist hlakka til að halda áfram hjá mér næsta skólaár. Loks hjó skólinn á hnútinn þegar hann sendi út lista yfir kennara skólans næsta skólaár. Nafnið mitt var ekki á listanum.

Ég brá við skjótt og sendi foreldrunum póst. Í dag gerði ég svo hreint fyrir mínum dyrum við börnin. Nokkur lítil augu fylltust tárum þegar ljóst varð að við yrðum ekki saman næsta skólaár. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Meðvirki tónlistarkennarinn íhugaði meira að segja að hætta við að hætta og halda áfram að passa dýrmætu fiðlubörnin sín. Það ástand varði þó ekki lengi. Víst eru nemendur mínir yndislegir en maður verður að standa með sjálfum sér.

Vilji maður vera metinn að verðleikum þarf maður að standa með sjálfum sér. Það ætla ég að gera. Launanefndin á von á góðu í haust.


Víóluskrímslið - skerpir klærnar