Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, mars 31, 2009

Hugartengsl

Á leið minni í vinnuna í gærmorgun hlustaði ég á tónlistina úr Stjörnustríðsmyndunum í góðum nördafíling. Þegar kom að Svarthöfðamarsinum margfræga fór ég allt í einu að hugsa um Davíð Oddsson.

Það hljóta að teljast bein hugsanatengsl.

Víóluskrímslið - óskar sjálfstæðismönnum til hamingju með stjórnvisku leiðtoga síns

miðvikudagur, mars 25, 2009

Helvítis kötturinn étur allt og hann bróður minn líka

Kettirnir okkar eru ekki vandfýsnir á mat. Í raun mætti segja að þeir ætu allt sem að kjafti kemur - eða gerðu að minnsta kosti heiðarlega tilraun til þess. Upp á síðkastið hefur borið á töluverðri ævintýramennsku í vali þeirra á hlutum sem leggja má sér til munns - við mismikla hrifningu heimilismanna.

Á síðustu tveimur vikum hefur horfið ofan í þá

allt það sem fellur á gólfið við eldamennsku
muffinsbréf
horn af Fréttablaðinu
kveikur úr olíulampa
pallíettuskraut af ullarslá
vænn biti af sömu ullarslá
og
bróðurparturinn af pappakassanum utan um kattasandinn.

Eftir pallíettuslysið biðum við í ofvæni eftir því að þær skiluðu sér útum annan endann á sökudólgnum. Enn hafa þær þó ekki látið á sér kræla, að minnsta kosti ekki með óyggjandi hætti. Ekki virðist allt óætið fara illa í þá bræður nema síður sé. Enn eru þeir kelnir um daga og kátir um nætur. Þó verður að viðurkennast að hér á heimilinu er nú oftar gengið frá en áður tíðkaðist. Það hlýtur að teljast jákvætt.


Víóluskrímslið - pissukeppni á Alþingi? Nei, þá segir maður frekar frá köttunum sínum.

þriðjudagur, mars 17, 2009

Svona á að skapa þjóðfélagsþegn

Í gærkvöldi kíkti ég í heimsókn til þeirra viðkvæma fræðimannsins og bleika drekans en þau eignuðust myndarlegt stúlkubarn fyrir skemmstu.

Stúlkan, sem í móðurkviði fékk vinnuheitið fræðlingurinn, er fríð og gáfuleg sýnum og verður áreiðanlega prýðis forsætisráðherra þegar hún verður stór.

Í það minnsta veit hún hvað hún vill og er óhrædd við að láta heyra í sér gangi það ekki eftir.


Víóluskrímslið - hamingjuóskir