Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Sálarró

Það er lygilega róandi að sitja í sófanum með kjöltutölvuna á hnjánum og malandi kött í fangi, te í krús og jólalagaútsetningar á skjánum.

Mæli með þessu fyrir alla sem þurfa að lækka blóðþrýstinginn. Forsendurnar fyrir því að rétt ástand náist eru að vísu kjöltutölva, köttur (eða tveir), te og jólalög. Röðin skiptir hins vegar ekki máli.

Víóluskrímslið - kattahár á svörtum bol

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Hjer er gert við prímusa

Hér með neita ég, Anna Hugadóttir víóluskrímsli og barnafræðari, því algerlega að ég beri nokkra ábyrgð á þeim efnahagslegu hörmungum sem nú dynja yfir íslensku þjóðina.

Þessu til sönnunar legg ég fram heimilisbókhaldið frá árunum 1999-2008 fyrir hvern sem lesa vill.

Auk þess hef ég aldrei skilið fólk sem telur sig þurfa að hafa margar milljónir á mánuði til þess að komast af. Það er nú bara aumingjaskapur.

Víóluskrímslið - ekki mitt klúður

laugardagur, nóvember 01, 2008

Reiðin

Ein af mínum fyrstu minningum er frá fyrsta maí einhverntímann snemma á níunda áratug síðustu aldar. Mér var ekið í kerru niður Laugaveginn, það var sól og ég hélt á íslenskum fána í búttaðri hönd. Við fyrstu sýn gæti virst sem ég væri hér að lýsa gleðilegri æskuminningu. Víst var sól og von á kúfuðum kökudisk að göngu lokinni. Hvorki sólin né kökurnar náði þó að yfirskyggja reiðina í göngufólkinu sem enn situr í mér meira en tuttugu árum síðar.

Fólki fannst það svikið. Ekki aðeins af atvinnurekendum og stjórnvöldum - heldur verkalýðsforystunni líka. Í gjallarhorninu hljómaði krafan ,,sömu laun og Ásmundur" og göngumenn tóku kröftuglega undir. Fólk var þreytt á að þurfa að þræla allan sólarhringinn til þess að eiga í sig og á. Verðbólgan ætlaði alla lifandi að drepa. Framtíðin óljós. 

Síðan hef ég farið í margar göngur og meinlausari með ári hverju. Annað var uppi á teningnum í dag. Kapítalisminn var hengdur í hliðið við Austurstræti. Austurvöllur stappfullur af fólki. Reiðin er snúin aftur. Og ekki að ástæðulausu.


Víóluskrímslið - þúsund manns?! Hvað komast margir á Austurvöll?