Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 24, 2006

Heim í heiðardalinn

Ég er komin heim. Við dr. Tót drösluðum því sem eftir var af búslóð minni í Hollandi með okkur í lest út á Schiphol í morgun. Á leiðinni var dr.Tót svo óheppinn að stíga í stærðarinnar hundaskít á einum lestarpallanna. Það fannst mér eftir á að hyggja afar táknrænt.

Fluginu seinkaði nokkuð vegna veðurs en allt fór þó vel að lokum. Ísland heilsaði með hressandi roki og rigningu. Þegar ég skrúfaði loks frá heitavatnskrananum í föðurhúsum vöknaði mér um augun af þjóðernisást. Svona verður maður meyr með aldrinum.

Á morgun eru jól. Það er besta mál.


Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár!


Víóluskrímslið - sjáumst

sunnudagur, desember 17, 2006

Tilkynningar
´
Prófið er búið. Nú má ég kalla mig víóluleikara í símaskránni.

Þetta gekk alveg svona glimrandi vel og dómnefndin gaf mér einkunnina 8,5. Mesta lukku vakti sólóverkið hennar Önnu, nema hvað. Ég er viss um að það togaði mig upp um einn heilan. Auk þess tók nefndin þá ákvörðun að hleypa mér í fjarnám til mastersgráðu í fiðlukennslu. Ég verð því með annan fótinn í H-landi næstu tvö árin.

Fjölskyldan var mætt á svæðið mér til stuðnings og salurinn var fullur af vinum og kunningjum. Eftir tónleikana var haldið á vínkrá eina þar sem menn skemmtu sér fram eftir kvöldi og mér voru gefnir margir pakkar. Kærar þakkir, þið sem hugsuðuð til mín að heiman!

Í gær skruppum við svo til Amsterdam, fjölskyldan. Við fórum í bátsferð þar sem margt bar fyrir augu og amma hafði orð á því að Amsterdam væri allsérkennileg borg.
Í dag á Margrét litla systir afmæli og því fögnuðum við með því að skoða fláð lík og sundursagaða skrokka á sýningu um mannslíkamann. Kannski nokkuð til í þessu hjá ömmu.

Nú er þetta komið gott. Fjögur og hálft ár í útlöndum liðin og ég á leið heim eftir viku. Ég trúi þessu samt ekki fyrr en ég er komin með skírteinið í hendurnar.

Sjáumst um jólin, gott fólk!!


Víóluskrímslið - B. Mus

þriðjudagur, desember 12, 2006

Lífsstíll

Mikið held ég að það sé leiðinlegt að vera krónprinsessa. Sérstaklega held ég að það sé leiðinlegt að vera krónprinsessa Hollands. Fyrir nokkrum árum var Maxima, eiginkona hollenska krónprinsins, argentínsk fegurðardís á framabraut í viðskiptalífinu. Nú er hún gift leiðinlegasta manni norðan Alpafjalla og hefur ekkert að gera nema klippa á borða og eignast börn. Jú, og læra hollensku.

Þá held ég sé betra að vera úfið víóluskrímsli sem valsar barnlaust og frjálst um víðan völl án nokkurra skuldbindinga. Nema ef ske kynni nokkurra milljóna námslán á bakinu. Það er seinni tíma vandamál.


Satanísk jól


Svörtu jólin hafa haldið innreið sína víðar en á Íslandi. Hér í H-landi er allt vaðandi í jólaskrauti sem myndi betur sóma sér við svarta messu en á hátíð ljóss og friðar. Svona rusl kemur aldrei inn fyrir mínar dyr. Öss bara.


Víóluskrímslið - einfalt líf

sunnudagur, desember 10, 2006

Tilburg, borg óttans

Í gærkvöldi var blásið til veislu í stúdentahúsinu hans Gerbens litla bróður. Þar var margt um gelgreiddan gaurinn og fáklætt fljóðið, ölið rann í stríðum straumum og plötusnúður notaði gaseldavélina sem hillu fyrir vinylsafnið sitt.

Þar sem nú er nokkuð liðið á lokasprettinn (prófið er á föstudaginn næsta) rak ég bara rétt inn nefið en það var nóg til þess að ég hitti Leó fyrrum húsbróður minn, sem ég hef ekki séð í ár. Urðu þar fagnaðarfundir. Þar sem við stóðum þrjú í ganginum og spjölluðum æddi fram hjá okkur krullhærð stúlka sem virtist vera mikið niðri fyrir. Hún hvíslaði einhverju í eyrað á Gerben og æddi áfram út ganginn.

"Hvað var þetta?" fýsti okkur að vita. "Æ," sagði Gerben, "hann Ruud rændi hússjóðinn aftur og fór að kaupa dóp fyrir peninginn. Hún veit alveg að hann borgar alltaf til baka á endanum. Henni fannst bara svo ókurteislegt að hann skyldi ekki hafa spurt."

Víóluskrímslið - ungdómurinn nú til dags...

fimmtudagur, desember 07, 2006

Kvörtunarkór Helsinki

Hér http://www.glumbert.com/media/helsinkichoir má sjá Helsinkibúa syngja um allt það sem er að í Helsinki.

Ég hló upphátt að minnsta kosti þrisvar sinnum.


Víóluskrímslið
- gerir lífið skemmtilegra

miðvikudagur, desember 06, 2006

Jamm

Hjólið mitt, andsetni skranhaugurinn sem bilað hefur samviskusamlega í hverri viku síðan í september, gaf endanlega upp öndina í kvöld - nákvæmlega sjö tímum eftir að ég sótti það í viðgerð.

Aldrei aftur.

Á svona dögum er gott að eiga að ferfættan loðinn vin sem sefur á bringunni á manni og malar svo titringurinn finnst aftur í hryggjarsúlu.

Geðheilsunni er borgið.


Víóluskrímslið - á fæti

sunnudagur, desember 03, 2006

Hvalræði

Fyrir viku síðan stóð ég fyrir framan bekkinn minn í hljómsveitarstjórn og æfði með þeim afar sundurleita hjómsveitarútgáfu af "America" úr West Side Story. Kennarinn hafði valið þetta sem eitt af prófstykkjunum mínum að mér forspurðri og skemmti sér vel yfir einbeitingarsvipnum á trýninu á mér þar sem ég kepptist við að slá tvo og þrjá á víxl án þess að ruglast.

Þegar ég var búin að skælast í gegnum stykkið á nokkurn veginn skikkanlegan hátt stóð hann upp úr stólnum og ég hélt að hann ætlaði að fara að leiðbeina mér við stjórnunina. Aldeilis ekki.

"Ferð þú aftur til Íslands þegar þú útskrifast?" spurði herramaðurinn og horfði á mig h-lenskum vantrúaraugum. Ég sagði svo vera. "Færðu eitthvað að gera þar?" hélt hann áfram og h-lenska vantrúin færðist í aukana. Ég hélt nú það. "Ætlarðu þá að borða hvalkjöt þegar þú ert komin þangað?" spurði hann enn og bekkurinn tók andköf af æsingi. Ég stundi. Gat nú skeð. Já, ég sagðist líklega munu gera það enda þætti mér það gott. Bekkurinn gaf frá sér ógreinilegt hvískur. "Það finnst okkur hér svo sorglegt," sagði kennarinn og horfði á mig h-lenskum ásökunaraugum. "Það er bara algerlega ykkar mál," hvæsti ég á manninn. Bekkurinn tók andköf á ný, í þetta sinn öllu greinilegar. "Getum við kannski snúið okkur að efninu," hélt ég áfram og boraði gat á mannfjandann með augnaráðinu. Hann var ekki á þeim buxunum.

"Við Hollendingar skiljum bara ekki..." hélt hann áfram en náði ekki að klára setninguna því mér var nóg boðið. Þarna stóð karlinn bísperrtur, nýbúinn að slöngva framan í mig erfiðara prófstykki en nokkurt hinna h-lensku krakkakvikindanna mun þurfa að fást við og baunaði á mig fyrir hvalveiðar Íslendinga. Ég skrúfaði frá 0 á Kelvin röddinni minni og sagði að mér þætti þetta fáránlegt umræðuefni við þessar aðstæður og mæltist til þess að við höguðum okkur eins og atvinnumenn.

Bekkurinn snarþagnaði. Andrúmsloftið var þrungið spennu.

"Þið Íslendingar eruð að meðaltali ekkert sérlega vitlausir, er það" sagði kennarinn eftir nokkra þögn. Ég ákvað að hunsa manninn og taldi í. Mér til mikillar furðu kom hver einasti maður inn á einum.


Víóluskrímslið - hann fellir mig örugglega, karlfjandinn...

laugardagur, nóvember 25, 2006

Hamburg

Það var gaman í Hamburg nú í vikunni. Við Anngegret trylltum lýðinn á tónleikum okkar í AUDIMAX 1 í Tækniháskólanum í Hamburg , fengum tvö uppklöpp, lofsamlega blaðagagnrýni og hvaðeina.

Á tónleikunum prufukeyrði ég nýja sólóverkið hennar Önnu Þorvaldsdóttur fyrir opinbera frumflutninginn sem verður eftir mánuð. Viðtökurnar voru stórgóðar og menn héldu ekki vatni yfir því hvað Anna væri gott tónskáld.

Auk þessa skruppum við í siglingu um höfnina, í dýragarðinn og gerðum okkur ýmislegt annað til gamans. Svo varð ég lasin eins og alltaf gerist þegar ég fæ frí.

Æ mín auma önd.


Pútín

Ég ræddi rússnesk innanríkisstjórnmál við þarlendan bekkjarbróður minn á dögunum. Meðal annars fýsti mig að vita hvernig Pútín þætti öll sú gagnrýni sem fram hefur komið á hann og hans stjórnarhætti undanfarnar vikur, mánuði og ár.

Bekkjarbróðir minn yppti öxlum. "Blessuð vertu," sagði hann. "Pútín er skítsama um alla vestræna gagnrýni. Hann veit sem er að Rússland er algerlega sjálfbært. Evrópa og Bandaríkin mega tuða eins og þeim sýnist um mannréttindi, málfrelsi og lýðræði. Pútín hlustar með öðru eyranu, glottir - og skrúfar svo bara fyrir gasið."


H-land

Ég hata H-land.


Víóluskrímslið - 28 dagar í frelsið

mánudagur, nóvember 20, 2006

Igor

Hér í H-landi rignir eldi og brennisteini þessa dagana. Í veðrum sem þessum hef ég það fyrir sið að klæðast heiðgulri útihátíðaregnslá úr ruslapokaplasti sem ég keypti einhvern tímann á 100 krónur í Hagkaupum. Sláin er í stærð XXXL og nær því léttilega bæði utan um mig og víólukassann minn. Klædd þessum eðalfatnaði skælist ég á hjóldruslunni milli bæjarhluta og líkar vel.

Mér finnst ég vera afar virðuleg svona til fara. Víólukassinn myndar stórfínan herðakistil undir regnslánni og rauð ullarhúfan sem gægist undan gulri hettunni setur punktinn yfir I-ið. Þegar maður bætir svo við ískrinu í hjóltíkinni er engu líkara en þar sé sjálfur krypplingurinn Igor á ferð.

Skil ekki að fólki skuli ekki þykja þetta smart klæðnaður.


Víóluskrímslið - meiri snjó

laugardagur, nóvember 18, 2006

Fahren, fahren, fahren auf dem Autobahn

Síðasta vika var vika hins morgunfúla og viðskotailla víóluskrímslis. Það fer ekki vel með sálina að þurfa að fara á fætur klukkan sjö á hverjum morgni og vera stanslaust að til miðnættis.

Ástæða þessara anna voru m.a. tvö hljómsveitarverkefni, annað með verkum eftir Britten og Handel og hitt með nútímatónlist eftir ýmis tónskáld, þar á meðal nokkra nemendur skólans. Það tekur á taugarnar það læra tvö prógrömm samhliða, sérstaklega þegar maður vill heldur vera að æfa sig fyrir lokaprófið sem nálgast óðfluga. Auk þess fylgdu seinna verkefninu mikil ferðalög, þar á meðal til Munster í Þýskalandi. Þangað keyrðum við í gær, settum upp svið, spiluðum í klukkutíma, tókum sviðið niður aftur og keyrðum til baka. Ég fékk far með vörubílnum, sem ökumaðurinn náði upp í 140 km á klukkustund þrátt fyrir að vera með fullan bíl af slagverki og örþreyttum tónlistarnemum. Það tel ég vel af sér vikið.

Í dag lá ég í leti og eldaði mér fyrstu almennilegu máltíðina í viku. Ekki meiri samlokur í bili takk.

Á morgun fer ég til Eindhoven að spila á tónleikum með hollenskum áhugamannakór sem gæti komið sterklega til greina sem falskasti kór Evrópu norðan Alpafjalla. Þemað er Mozart noktúrnur og forsvarsmaður kórsins vildi að strengjaleikararnir yrðu með hvítt blúnduslifsi úr gömlum gardínum. Ég sagði nei.

Mig langar heim í frostið.


Víóluskrímslið - tæknileg mistök

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Hvað í.....!?

Í morgun gerðist nokkuð sem aldrei hefur átt sér stað þessi rúmu fjögur ár sem ég hef búið hér í H-landi. Ég heyrði Hollending láta út úr sér setninguna "Þetta reddast". Mér lá við andköfum af spenningi.

Eins og þetta sé ekki nóg til að valda venjulegu fólki svefntruflunum las ég í netmogganum að Árni Johnsen sé á leið aftur á þing.

Heimsendir er í nánd. Það held ég sé alveg ljóst.


Víóluskrímslið - ekki er öll vitleysan eins

föstudagur, nóvember 10, 2006

Ble

Eftir stífa viku er fátt ljúfara en að liggja endilangur í sófanum með andfúlan lánskött í handarkrikanum og glápa á arfaslappar hryllingsmyndir í sjónvarpinu - með hollenskum texta.

Síðustu viku var ég hluti af hóp sem æfði upp nokkur nútímaverk af ýmsum toga sem á að flytja á tvennum tónleikum á nútímatónlistarhátíðarinni November Music í næstu viku. Eitt verkanna er samið fyrir víólu,píanó og marimbu og er því ætlað að vera "fyndna,skrítna og skemmtilega verkið sem sendir áheyrendur út með bros á vör". Sá galli er þó á gjöf Njarðar verkið er rottuerfitt og tónskáldið skilaði því ekki inn fyrr en síðastliðinn mánudag. Þar sem ég hef hvorki tíma né nennu til að æfa flausturslega skrifað verk útdritað í leifturhröðum tvígripum og hlaupum er ég að hugsa um að búa bara til mína eigin notendavænu versjón af stykkinu. Piltungurinn sem skrifaði það getur sjálfum sér um kennt að skila inn stykki sem þarf mánuð til að ná inn með viku fyrirvara.

Veturinn er kominn og feldurinn hefur verið dreginn fram úr skápnum. Ofninn á fullu blússi og kakó í potti á eldavélinni. Lánskötturinn fúngerar sem lifandi hitapoki. Manni líður bara allt of vel til að hafa áhyggjur af einhverju svonalöguðu. Samt verð ég voða glöð þegar næsta vika er búin.


Víóluskrímslið -sörvæval

mánudagur, október 30, 2006

Gæludýr

Þeir lesendur sem voru fastagestir í Rottuholunni á dýrðarárunum 1999-2002 muna eflaust eftir páfagaukaelliheimilinu í eldhúsinu. Þar rak ég hjúkrunarheimili fyrir eldri gára sem auk fæðis og húsnæðis nutu þar félagskapar hvers annars og flugu hringi um eldhúskytruna, mörgum mennskum gestum til almennrar hrellingar.

Mér þótti afar vænt um þau Tístu, Kíkí, Pásu, Kasper og Friðgerði. Þegar ég gisti í rottuholunni í sumar rakst ég á uppþornað drit í eldhúsinu sem mér hafði af einhverjum ástæðum sést yfir þegar ég yfirgaf íbúðina haustið 2002. Þá hlýnaði mér um hjartarætur.

Síðan þá hef ég ekki átt þess kost að eiga gæludýr enda býður óreglulegt líferni og sífellt flakk milli landa ekki upp á slíkt. Ég hef þess í stað hænt að mér spörfugla með matargjöfum og notið heimsókna katta úr nágrenninu sem stundum hefur þóknast að heiðra mig með návist sinni. Það jafnast þó ekki á við það að eiga sitt eigið gæludýr.

Ég hlakka til að koma heim því þá ætla ég að fá mér kött. Ekki mús eða fisk, fugl eða úlf, heldur bröndótt fjósafress sem á að heita Bismarck. Hann skal vera feitur og fallegur, skapgóður og mjálmgefinn. Á hann ætla ég að festa bjöllu og spjald og við getum malað saman á kvöldin.


Víóluskrímslið - mjá.

fimmtudagur, október 26, 2006

Þau munu erfa landið

Þegar ég hljóp meðfram síkinu í eftirmiðddaginn í dag í nýju hlaupaskónum mínum með bleiku röndinni kom hópur gelgreiddra strákorma á hjólum á móti mér. Þar sem ég geystist fram hjá þeim á svo gríðarlegum hraða að merkið á joggingpeysunni sem pabbi fékk í fimmtugsafmælisgjöf sást varla æpti einn þeirra á eftir mér:

Hí á þig þú þarna með litlu brjóstin!

Blessuð börnin.


Víóluskrímslið
- tollir í tískunni

mánudagur, október 23, 2006

Góðir vinir

Um síðastliðna helgi hitti ég fimm manns sem ég hafði ekki séð í marga mánuði. Þetta voru þau Anna Hinkkanen, Annegret, Luis, Laura og síðast en ekki síst dr. Tót - sem þökk sé æðri máttarvöldum gat stungið af til Amsterdam yfir helgina.

Öll tókum við vandræðalaust upp þráðinn þar sem frá var horfið. Það er nefnilega þannig með sumt fólk að sama hversu langur tími líður á milli þess að maður hittir það líður manni ávallt eins og það hafi síðast gerst í gær.

Víóluskrímslið - jibbíkóla

miðvikudagur, október 18, 2006

Fyrir áhugamenn um germanska menningu

mæli ég með þessu hér. Ekki spillir fyrir hvað lagið er skemmtilegt og grípandi.

Aaaadolf....

Víóluskrímslið
- ich kapituliere nicht!

mánudagur, október 16, 2006

Rjúpnaskyttur

Mér finnst lágmark að menn læri á áttavita áður en þeir brenna upp á heiðar á fjórhjóladrifnum díseltrukkum og plaffa niður hænur í útrýmingarhættu.

Asnar.

Víóluskrímslið - heldur með rjúpunni

laugardagur, október 14, 2006

Dagar víns og rósa

Það rann upp fyrir mér áðan þegar ég var að sækja hjólið mitt á viðgerðarverkstæði í þriðja sinn í þessum mánuði að dögum víns og rósa hefur fækkað í lífi mínu undanfarið. Flestir þeirra sem hafa haft það fyrir sið að lyfta með mér glasi af góðu víni yfir spjalli og skemmtisögum eru horfnir af landi brott eða fluttir í sollinn í Amsterdam, Utrecht og Rotterdam og ég hef absolút engan áhuga á að fara á kojufyllerí með sjónvarpsfréttirnar einar sem félagsskap.

Hvað rósirnar varðar er ekki til blómavasi þar sem ég bý og ég tími ekki að kaupa mér einn. Sýnisdæmi um sjálfskaparvíti og gagnslausa sjálfsvorkunn.

Samt fannst mér þessi líking um daga víns og rósa ansi smellin og flissaði með sjálfri mér í svona 7 og hálfa mínútu. Svo fór ég og keypti mér hnetur.


Víóluskrímslið - segðu það með blómum

fimmtudagur, október 12, 2006

Bjánahrollur

Ég fór á tónleika í gær. Hin unga og upprennandi Sinfóníuhljómsveit Amsterdam (Amsterdam Sinfonie Orkest) lék þar sellókonsert Dvoráks og fjórðu sinfóníu Brahms með miklum glæsibrag og ekki spillti fyrir að Lára vinkona mín leiddi sellóin eins og herforingi. Einleikarinn var lítill bólugrafinn Frakki með svo rosalegar krullur að með léttu mætti festa hann í loftið á salnum með frönskum rennilás. Hann kunni sitt fag og vel það. Mikið finnst mér alltaf gaman að hlusta á fólk sem veit hvað það er að gera.

Tónlistin var góð. Góðir spilarar. Ekkert út á það að setja. Hins vegar var framsetningin svo fáránleg að ég sat með lokuð augun alla tónleikana til þess að gefast ekki bjánahrollinum á vald. Hér í H-landi er nefnilega mjög í tísku að "tónlistarmenn myndi persónulegt samband" við tónleikagesti til þess að auka á upplifun þeirra síðarnefndu og eru ýmsar leiðir farnar til þess að ná því takmarki. Í gærkvöldi óð myndatökumaður baksviðs með vídeóvél fyrir tónleikana og terroriseraði sviðsstjórann sem þurfti í smáatriðum að lýsa séróskum sólistans og segja nokkrar gamansögur til þess að skemmta lýðnum frammi í sal. Herlegheitunum var varpað upp á risastórt tjald sem hékk fyrir ofan sviðið. Þegar tónleikarnir hófust færðist myndavélin upp á svið og fengu tónleikagestir að fylgjast náið með hreyfingum sólistans allan konsertinn. Viðkomandi sólisti var einn þeirra sem gretta sig herfilega við hverja einustu stillingaskiptingu og virðast vera að fá hjartaslag í lok hverrar I-V-I kadensu með trillu. Reglulega var varpað upp myndum af Dvorák og tilvitnunum í hljómsveitarstjórann, að því er virtist til að benda tónleikagestum á hvað þeim ætti að finnast í það og það skiptið.

Eftir hlé fengu hljómsveitarmeðlimir að finna fyrir Britney Spears fílingnum þegar myndavélin fór að flakka um sveitina og súmma inn á hvern þann sem var með sóló. Það hefði ekki verið sem verst, hefðu tæknimennirnir ekki verið að klína textum yfir skjáinn í gríð og erg. Tímasetningin var stórkostleg, þegar klarinetturnar voru með sóló stóð: "Brahms hélt svo mikið upp á horn að hann skrifaði öll fallegustu sólóin fyrir það hljóðfæri" og þegar einn slagverksleikaranna hóf að berja þríhornið eins og andsetinn gaf að líta: "pákurnar gefa hljómsveitarverkum aukinn lit og kraft."

Að öðru leyti var myndavélin föst á hljómsveitarstjóranum sem var einn þeirra sem stjórna aðallega með andlitinu og virðast geta gefið mismunandi hljóðfærahópum inn með því að reka út úr sér tunguna í rétta átt. Ég er yfirleitt við hinn enda borðsins þegar svona stendur á og er of upptekin við að skila af mér partinum mínum sómasamlega til að finnast eitthvað athugavert við slíkt athæfi en núna leið mér eins og hefði farið edrú á djammið. Tónleikagestir fylgdust spenntir með hverri hreyfingu hljómsveitarstjórans á meðan ég sökk lengra og lengra ofan í sætið og óskaði þess augnablik að hægt væri að kveikja og slökkva á sýn manns að vild.

Að öllum líkindum var þessi framsetning valin til þess að færa tónlistina nær hinum almenna hlustanda sem vanur er múltímedía umhverfi þar sem öll skynjun er fléttuð saman. Ég höndlaði hana hins vegar mjög illa. Þegar ég fer á tónleika af þessu tagi fer ég til að hlusta, ekki til þess að horfa á grettur hljómsveitarstjórans eða fá að vita hvað fyrsta horn borðar í morgunmat.

Auk þess finnst mér ekki gaman þegar mér er sagt hvað mér eigi að finnast eða fyrir hvers konar hughrifum ég eigi að finna á tónleikum. Þess gerist heldur ekki þörf. Maður þarf ekki að vita neitt um tónlist til þess að geta notið hennar eða haft á henni skoðun. Tónlist er eins og vín. Ég veit ekkert um vín - en ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki.

Hvað finnst ykkur?


Víóluskrímslið - ringlað

þriðjudagur, október 10, 2006

Berlín

Ég var hjá litlu systur í Berlín um helgina og skemmti mér vel. Þau Róbert eru búin að koma sér val fyrir í gríðarflottri íbúð með meiri lofthæð en ég mun nokkru sinni búa við ef fram heldur sem horfir.

Að sjálfsögðu sátum við ekki auðum höndum. Við fórum á stórgott gigg með hljómsveitinni Brainpolice þar sem 3 kynslóðir slömmuðu í takt og undurfagra tónleika með norska drengjakórnum Sölvguttene í Berliner Dom. Auk þess fórum við á nútímalistasafnið Hamburger Bahnhof, testofu þar sem hægt er að fá gott te og rússneska kjötsúpu, á flóamarkað þar sem ég keypti mér marglita afar anníska hliðartösku til að geyma nestið mitt í og í partí þar sem hægt var að klifra upp á þak og skoða stjörnurnar.

Síðast en ekki síst fórum við Margrét og Róbert á myrkraveitingastaðinn Nocti Vagus þar sem snætt er í kolniðamyrkri og maður verður að reiða sig á öll önnur skynfæri til þess að sjá til þess að maturinn fari upp í mann en ekki á gólfið. Tveir ærsladraugar voru meðal gesta og skemmtu okkur með hrekkjum. Við vorum að mestu látin í friði en það gilti ekki um nokkra gesti staðarins sem draugarnir lögðu í hálfgert einelti, sennilega vegna þess að viðkomandi gestir ráku upp svakaleg öskur og píkuskræki í hvert sinn sem draugur potaði í þá. Það var svo ekki fyrr en búið var að leiða okkur aftur upp í ljósið að okkur var tjáð að ið hefðum m.a. borðað krókódíl og strút þarna í myrkrinu. Stórgott.

Þegar ég kom heim var bara ein könguló eftir í íbúðinni. Fegurðardrottningar eiga greinilega ekki skap saman til lengdar.

Víóluskrímslið - snúið aftur til hversdagsleikans

þriðjudagur, október 03, 2006

Meindýr

Á meðan ég bjó á Íslandi var mér aldrei neitt sérstaklega illa við skordýr. Þegar við Margrét vorum litlar létu mamma og pabbi okkur nefnilega leika okkur með köngulær og ánamaðka til að gera okkur að sterkum og mögnuðum valkyrjum. Það tókst ágætlega.

Þegar ég flutti svo til H-lands komst ég að því að skordýr geta verið ferlega hvimleið og leiðinleg. Mér þótti ekki gaman að stíga berfætt á stökka kakkalakka í morgunsturtunni (gleraugnalaus og allslaus) og ekki fannst mér sjarmerandi að finna maura í matnum mínum. Moskítóflugur hafa haldið fyrir mér vöku margar nætur og silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig nótt og dag. Verst var ástandið í Húsi hinna töfrandi lita, sem eftir á að hyggja getur vart talist mannabústaður.

Nú bý ég í aldeilis ágætri stúdentaíbúð þar sem lítið ber á fyrrnefndum kvikindum enda eru pípulagnirnar í góðu standi. Auk þess límdi ég moskítónet fyrir svefnherbergisgluggann ekki alls fyrir löngu. Eftir standa aðeins tvær sortir, köngulærnar og bévítans ávaxtaflugurnar.

Mér þykir vænt um köngulær. Þær veiða leiðinlegar flugur sem annars færu í taugarnar á mér og sitja rólegar í vefnum sínum þess á milli. Nú búa hjá mér 4 boldungs köngulær og ég fæ ekki betur séð en þar séu þrjár mismunandi tegundir á ferð. Að sjálfsögðu hef ég nefnt þær allar, í stofunni býr Hólmfríður, Linda P í eldhúskróknum, Unnur Birna er í vinstra baðherbergishorninu og Anna Margrét rétt fyrir utan svefnherbergisgluggann.

Um ávaxtaflugur gegnir öðru máli. Þær fjölga sér eins og kanínur og vaða um allt hús á frekjunni einni saman. Þrátt fyrir að fegurðardrottningarnar fjórar geri sitt besta til að vernda mig og heimili mitt gegn þessum skaðræðisdýrum sér ekki högg á vatni eftir daginn. Því tók ég til minna ráða nú í dag. Öllum ávöxtum var troðið í steríla plastsekki og bundið fyrir. Svo tók ég fram handryksuguna.

Hversu margar ávaxtaflugur létu lífið í því eðla tæki veit ég ekki fyrir víst. Hitt veit ég þó að mér þótti afar mikil skemmtun í að ganga frá kvikindunum.
Ég skildi akkúrat nógu margar eftir í kvöldmatinn handa gæludýrunum og skolaði svo ánægð úr síunni. Á morgun ryksuga ég aftur.

Stundum er gaman að vera til.


Víóluskrímslið - lord of the flies

miðvikudagur, september 27, 2006

Hún vakti meðan aðrir sváfu

Kisa sefur í sófanum við hliðina á mér og hrýtur. Gríðarlega heimilislegt, þó ég eigi tæknilega séð ekkert í þessm ketti. Það er bara svo þægilegt að vaka þegar aðrir sofa í námunda við mann.

Þessvegna finnst mér best að vinna á næturnar.

Undanfarna daga og vikur hef ég streist á móti því að falla aftur í mitt náttúrulega þjóðfélagslega óhagkvæma svefnmynstur (sem felst í því að fara að sofa um 3:30 á morgnana og vakna um 11)og reynt að mæta alltaf í skólann á sama tíma svo mér verði eitthvað úr verki. Það hefur ekki gengið sem skyldi.

Það er nefnilega svo gott að vaka þegar aðrir sofa og hlusta á þögnina sem myndast þegar borgin leggst til svefns.


Víóluskrímslið
- fátt um fína drætti

þriðjudagur, september 26, 2006

Bræður og systur - mikið langaði mig að ganga með ykkur niður Laugaveginn í kvöld.

Baráttan er rétt að byrja.


Víóluskrímslið
- gefst ekki upp

föstudagur, september 22, 2006

Borðsiðir

Þegar ég fór til útlanda á vit óvissunnar fyrir rúmum 4 árum síðan kvaddi mamma mig með virktum - og minnti mig á að sleikja ekki hnífinn í matarboðum.

Með þetta móðurlega ráð að leiðarljósi hélt ég út í heim og hef mér vitandi ekki sleikt hníf í viðurvist annarra síðan þá.

Í þessari mynd er reyndar ekki varað við slíkri háttsemi þó ýmis varnarráð beri á góma. Líklegast þótti handritshöfundum myndarinnar sú athöfn að sleikja hnífinn svo fjarstæðukennd að engum tilgangi þjónaði að vara við henni. Hvað það varðar sló mamma þeim við.

Víóluskrímslið - óforbetranlegt

miðvikudagur, september 20, 2006

Ferfættur gestur

Ég hef eignast nýjan vin. Ekki veitir af svona á þessum síðustu og verstu tímum. Þessi nýji vinur stökk inn um gluggann minn einn daginn nú rétt fyrir helgi og gerði sig heimankominn. Ég tók honum fagnandi.

Kisi kíkir nú við á hverjum degi, kembir íbúðina vandlega til þess að athuga hvort nokkuð hafi breyst síðan hann kom þar daginn áður, fær sér vatnssopa úr plastskálinni sem hann hefur eignað sér og sofnar svo í sófanum góða stund. Í einsemd minni þykir mér afar vænt um þessar daglegu heimsóknir.

Í gær keypti ég meira að segja kattanammi handa kisa. Það er ótækt að geta ekki boðið gestum upp á veitingar.


Víóluskrímslið - ég er vinur þinn

þriðjudagur, september 19, 2006

Manndómsvígsla í Mexíkó

Loksins loksins, eftir tveggja vikna bið, hef ég tengst alnetinu á ný. Mun nú símareikningurinn fara lækkandi og er það vel. Til þess að fagna þessu langar mig að segja ykkur, lesendur góðir, magnaða sögu sem er höfð eftir mexíkóskum félaga mínum og er, þó ótrúlegt megi teljast, dagsönn.

Saga þessi gerist í Mexíkóborg á sólríkum sumardegi fyrir 20 árum síðan. Luis, aðalpersóna þessarar sögu, var þá 14 ára og nýbúinn að eignast sína fyrstu kærustu sem var árinu yngri. Samband þeirra einkenndist af göngu- og bíóferðum þar sem þau héldust feimnislega í hendur og sakleysislegum kveðjukossum fyrir framan útidyrnar hjá kærustunni.
Ekki leið á löngu áður en Luis var kynntur fyrir fjölskyldu kærustunnar en eins og gengur og gerist á þeim slóðum var hún ansi stór. Faðir stúlkunnar tók strax einstöku ástfóstri við drenginn og bauð honum að fylgja sér og sonum sínum á skeiðvöll Mexíkóborgar um helgar og veðja á hesta. Luis slóst í för með þeim nokkrum sinnum og undi vel við þessa karlmannlegu iðju.
Í fjórða skiptið sem Luis fékk að fylgja tengdó á skeiðvöllinn settist ung kona hjá þeim feðgum og lét heldur fleðulega. Tengdapabbi var orðinn góðglaður og tók henni fagnandi. Eftir nokkrar samningaviðræður varð úr að þau veðjuðu á sitt hvorn hestinn í næsta hlaupi. Ynni hestur stúlkunnar lofaði tengdó að bjóða henni upp á drykk. Ynni hinn hesturinn yrði stúlkan, hverrar starfi lá vart milli mála, að fara með öllum hópnum á hótelherbergi. Vart þarf að taka fram að hestur tengdaföðurins kom í mark fyrstur allra.
Þegar á hótelið var komið skipaði tengdapabbinn sonum sínum inn á baðherbergi. Nú ætti Luis litli að fá að fara fyrstur þar sem hann væri hreinn sveinn. Sjálfur tyllti hann sér á rúmstokkinn og vafði sér sígarettu. Luis vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið enda var reynsla hans á þessu sviði afar takmörkuð. En hvort sem það var fagmannlegum tökum stúlkunnar eða bjórnum sem tengdapabbi skipaði honum að skella í sig áður en átökin hæfust að þakka tókst honum ætlunarverkið undir dynjandi hvatningarópum tengdaföðurins. Svo var Luis litli rekinn inn á bað á meðan hinir brugðu sér á bak.
Að atinu loknu fóru synirnir út á gang þar sem jónan var látin ganga á meðan pabbinn gerði upp. Eitthvað gekk það öðruvísi en ætlað var því stúlkunni fannst hún hlunnfarin og hótaði að kalla til lögreglu. Eftir nokkurt þóf sættust þau þó á ásættanlegt verð og er hún úr sögunni.
Næst lá leiðin á veitingastað þar sem tengdafaðir Luisar bauð hersingunni upp á dýrindis málsverð til heiðurs hinum ný afsveinaða pilti. Með matnum fylgdu ýmsir göróttir drykkir og ekki leið á löngu áður en selskapurinn var orðinn ansi blekaður. Síðan fóru þeir á krá þar sem drukkið var og dansað. Þegar þar var komið fannst drengunum hann sannarlega hafa himin höndum tekið.
Klukkan var langt gengin í fimm að morgni þegar tengdó áttaði sig loks á því að þeir hefðu alls ekkert látið vita af sér heim. Luis viðraði áhyggjur sínar af viðbrögðum tengdamóðurinnar við pabbann. Sá þóttist þó hafa ráð undir rifi hverju enda væri hann sérfræðingur í að blíðka konur. Á leiðinni heim kallaði hann til hóp mariachi götusöngvara til þess að syngja konu sinni serenöðu. Auk þess reif hann upp nokkur ótótleg blóm í almenningsgarði einum.
Þrátt fyrir þetta var tengdamamma allt annað en blíð á svipinn en þegar hún kom fram á útitröppurnar klukkan sex að morgni í náttkjólnum með rúllurnar í hárinu og dóttur sína, kærustu Luisar, í felum fyrir aftan sig. Enda mætti henni ófögur sjón - eiginmaðurinn og synir hennar kófdrukknir, drulluskítugir og sjúskaðir, tengdasonurinn litlu skárri og falskir marichisöngvarar gólandi fyrir aftan þá. Eiginmaðurinn veifaði blómvendinum og lýsti yfir ódauðlegri ást sinni til konu sinnar sem blíðkaðist ekki við að nema síður væri. Full heilagri reiði dró hún mann sinn inn á þeim fáu hárstráum sem eftir voru á hans eðla kolli, skipaði mariachisöngvurunum að hypja sig og hellti svívirðingum yfir syni sína. Dóttir hennar horfði þögul á aðfarirnar. Það var það síðasta sem Luis sá til hennar því mamman skellti hurðinni beint á nefið á honum á meðan hún lét skammirnar dynja á eiginmanni sínum. Aldrei sá Luis stúlkuna aftur og síðan þá hefur hann ekki veðjað á hesta.
Og lýkur þar með sögunni.


Víóluskrímslið
- sagnaþulur

þriðjudagur, september 12, 2006

Jin og jang

Smámsaman kemst jafnvaegi á líf mitt á ný. Í gaer kom skilvís finnandi taktmaelinum mínum til mín. Til thess ad jafna út thá einskaeru heppni fékk ég fjögur svaesin moskítóbit í nótt.

Nú aetla ég ad fara og saekja hjólid mitt í vidgerd. Gledin yfir vidgerdu hjóli núllast vaentanlega út thegar ég borga fyrir herlegheitin.

Lífid snýst um balans. Thad eina sem skiptir máli.

Víóluskrímslid - í himnesku jafnvaegi

föstudagur, september 08, 2006

Himnesk tholinmaedi

Thad maetti halda ad eg hefdi stundad hugleidslu um arabil. Thví ad thrátt fyrir ad

* ég hafi eytt 50 evrum í símakort til thess eins ad vera haldid á línunni hjá upplýsingasíma útlendingaeftirlitsins trekk í trekk

* einhverjum idjót hafi tekist ad laesa hálf ónýta aftaná lásnum á nýja-gamla hjólinu mínu og ég thurft ad drösla thví á sjálfri mér til löggunnar til thess ad fá hann sagadan í sundur

* nettengingin heima sé ekki enn komin í gagnid thrátt fyrir ítrekud loford um annad og fýluferdir á hinar ýmsu skrifstofur thar sem enginn veit neitt

* tölvunördarnir hjá tölvuthjónustu stúdenta hafi neitad ad skoda hvort tölvan mín sé med rétt ethernetkort til thess ad taka vid nettengingunni

* ég sé hjóllaus - thví thad sprakk á nýja-gamla hjólinu mínu í gaer og thar sem ég á ekki baetur setti ég thad í vidgerd thar sem thad mun mosavaxa og safna köngulóarvefjum

* ég sé med 21 marblett

* manneskjan fyrir aftan mig á bókasafninu sé ad hlusta álélegt R&B í alltof hátt stilltum ipodinum sínum

* ég hafi sídastlidinn midvikudag tynt taktmaelinum minum sem hefur fylgt mer í 8 ár, sundurteipadur eftir ad hafa dottid ófáum sinnum í gólfid

* ég sé umkringd hálfvitum

... hef ég ekki enn misst stjórn á skapi mínu, ekki sparkad í neitt eda neinn eda eydilagt nokkurn skapadan hlut. Thetta hlýtur ad vera throskamerki.

Nú finnst mér hins vegar ad óheppnin megi haetta ad elta mig.

Víóluskrímslid - Nederland zat

fimmtudagur, september 07, 2006

Trú, von og kaerleikur

Í dag hitti ég eina af bekkjarsystrum mínum úr víóludeildinni í kaffistofunni. Eftir ad hafa spjallad og spurt hvor adra frétta um stund spurdi ég hana hvort hún vaeri enn med kaerastanum frá thví fyrir sídustu jól.

Nei, thad var ekki svo gott. Kaerastinn hafdi sagt henni upp fyrir stuttu, ad thví er virtist án ástaedu. Hún sagdist hafa verid afar slegin yfir thessu og til ad auka á eymdina hafdi hún frétt nokkrum dögum sídar ad hann hefdi verid skrádur á eina vinsaelustu stefnumótasídu H-lands um margra mánada skeid. Thetta thótti mér leitt ad heyra og tjádi henni samúd mína.

Já, sagdi hún thá. Thad var verst hvad thad kom mér á óvart. Ég hefdi átt ad vera búin ad sjá hann thar fyrir löngu. Ég var sko skrád tharna líka.

Mig setti hljóda.


Víóluskrímslid
- jahá.

þriðjudagur, september 05, 2006

Tilburg calling

Eg sit a bokasafni skolans og hamra a hollenskt lyklabord. Netid i pinulitlu studentaibudinni minni kemst ekki i gagnid fyrr en eftir nokkra daga, thegar eg verd buin ad fylla ut oll skyld eydublod, skila theim inn til morknudu skrifstofudomunnar a leigumidlun studenta og dansa fyrir hana litinn dans. Kannski eg dansi lika fyrir starfsmenn utlendingaeftirlitsins sem heldu mer a linunni i halftima rett adan a medan siminn at sig i gegnum 15 evru simakort - sem svo klaradist adur en eg nadi sambandi. Eg var buin ad gleyma hversu aedislegt thad er ad bua i H-landi.

Eg sneri aftur sidastlidinn fostudag eftir 10 daga "camp viola" i belgiska thorpinu Spa. Thar var mikid aeft og enn meira etid. Atid hafdi thaer anaegjulegu aukaverkanir ad nu passa eg aftur i svortu spilabuxurnar sem hafa verid of vidar i ad verda tvo ar. Tha tharf eg ekki ad kaupa nyjar buxur. Thegar til Tilburgar var komid tok a moti mer ein su skitugasta ibud sem eg hef augum litid a aevi minni. Eftir ad hafa thrifid hana hatt og lagt med geislavirkum leysiefnum for mer ad lida adeins betur. Thegar eg fekk svo hluta af draslinu minu aftur ur geymslunni hennar Gydu gerdi eg heimilislegt med thvi ad dreifa thvi ut um allt. Nu sest ekki ad eg hafi tekid til. Thad skiptir hins vegar ekki mali, thvi eg veit thad.

Profanefnd skolans tok sig til og urskurdadi fostudaginn 15.desember naestkomandi sem profdag violuskrimslisins! Ad sjalfsogdu byst eg vid rifandi maetingu, klappstyruduskum og spjoldum med hvatningarordum. Thad myndi hrista upp i lidinu.


Violuskrimslid
- ardraent af utlendingaeftirlitinu

föstudagur, ágúst 18, 2006

Borg dauðans

Ég er komin aftur í bæinn. Ég hefði alveg verið til í að vera lengur fyrir vestan, en skyldan kallar. Það er óhætt að mæla með mörgu á sunnanverðum Vestfjörðum, þó mér skiljist á heimafólki að það hafi verið annar og betri bragur á bæjarlífinu í plássunum fyrir 10 árum. Hvað sem því líður fá sundlaugarnar á Patró og Tálknafirði hæstu einkunn. Finni maður enn fyrir vöðvabólgu eftir gott pottasund er upplagt að skella sér til Sollu nuddara á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar sem er flestum færari í sínu fagi. Völlurinn, nýr veitingastaður rekinn í gamla flugvallarhúsinu á Patreksfirði fær sérstök meðmæli BOTNLAUSA GÍMALDSINS fyrir stóra og mikla skammta á afar góðum prís. Risastóra súkkulaðikökusneiðin sem við dr. Þórarinn fengum þar okkur nánast að kostnaðarlausu mun lengi í minnum höfð.

Á Hnjóti er skemmtilegt safn um alvöru fólk og lífsbaráttu þess auk þess sem gamlar flugvélar fullar af kindaskít prýða svæðið. Upplagt fyrir þá sem alltaf hefur langað að vita hvernig rússneskar flutningaflugvélar litu út að innan. Í Selárdal eru mórauðar og svartar kindur sem leggjast til svefns úti á miðjum vegi og merkilegir staðir, þar sem safn Samúels í Selárdal ber hæst. Það er búið að mála ljónin í gosbrunninum og setja á þau veiðihár, nokkuð sem gladdi mitt litla hjarta.

Auk þessa gerðist það að ég keyrði bíl frá Patreksfirði til Bíldudals án þess að stofna neinum í bráða hættu. Það þótti mér merkilegt.

Nú er ég komin í bæinn með kvef á byrjunarstigi, þökk sé dr. Þórarni og öllum krökkunum á sunnanverðum Vestfjörðum sem hafa eytt sumrinu í að hósta framan í hann.

Ég fer út á mánudag. Þeim sem vildu minnast mín er bent á gemsann minn. Þeir taki til sín sem eiga.


Víóluskrímslið - góðu vant

laugardagur, ágúst 12, 2006

Rigning

Það hellirignir á Patreksfirði. Ég sit inni og klippi og lími sem óð væri á meðan kappklæddir smákrakkar í pollagöllum leika sér fyrir utan gluggann hjá mér. Þetta eru hörkukrakkar hér á Patró. Ekki nenni ég út.

Skipaður héraðslæknir á Patreksfirði er staddur á Ísafirði að spila drullubolta með bekkjarfélögum sínum úr læknadeild. Mér skilst að þeir hafi spilað í hvíta sjúkrahússgallanum. Það er rokk.

Víóluskrímslið - sticky fingers

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Himnaríki á jörðu

Það jafnast ekkert á við það að hafa heila sundlaug út af fyrir sig í glampandi sól og góðu veðri. Þannig var það í dag þegar ég skrapp í Sundlaug Patreksfjarðar. Hamingjan átti sér engin takmörk.

Nú sit ég með útklístraða samanlímda fingur og bý til parta úr partítúrnum af 6. Brandenburgarkonserti Bachs fyrir 2 víólur og hljómsveit. Það er svosem ágætt líka.

Súkkulaðikaka á eldhúsborðinu.

Mig langar að flytja út á land þegar ég verð stór.


Víóluskrímslið - ég vil fara, upp í sveit

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Go west, life is peaceful there

Ég kom vestur á Patreksfjörð í gær. Á vélinni var klukkutíma seinkun vegna tafa í Vestmannaeyjum. Liðið sem valt út út vélunum þaðan var í misjöfnu ástandi svo ekki sé meira sagt. Mikla kátínu vakti ungur maður í SÁÁ peysu sem á stóð LÍF ÁN ÁFENGIS. Hann var svo drukkinn að hann stóð ekki á löppunum.

Á leiðinni var talsverð ókyrrð eftir að komið var yfir Breiðafjörðinn. Vænn sóðaborgari á veitingastaðnum Þorpinu kom meltingarfærunum í lag eftir hossið i rellunni. Viðbrennd djúpsteikingarfita á sér engan líka í slíkum tilgangi. Ekki nema þá helst finnskt rúgbrauð með mikilli kæfu.

Undanfarnir dagar og vikur hafa verið annasamir og fréttnæmir með afbrigðum. Ég hef hins vegar ekki í mér eirð til þess að gera því öllu saman skil skrilega. Fólk verður bara að hringja í mig finnist því það svikið.

Ég er farin að læra heima.

Víóluskrímslið - tónflytur af kappi

föstudagur, júlí 14, 2006

Stórfréttir

Þegar maður er í sumarfríi (sem samanstendur af vinnu, áti og svefni og hektískum tilraunum til þess að hitta alla þá sem manni þykir vænt um, helst alla í einu)bloggar maður ekki nema um stórfréttir séu að ræða.

Eins og í dag.

Undanfarna daga hefur reyndar ýmislegt fréttnæmt gerst, þó fátt nái þeim status að teljast stórfrétt. Það væri þá helst neitun tónlistarsjóðs við styrkumsókn minni sem ég fékk í pósti í gær. Enda öskraði ég af réttlátri reiði alla leiðina í vinnuna í gærkvöldi. Sem betur fer var ég á hjóli og lítil umferð.

Nei, stórfrétt dagsins á sér aðra og gleðilegri sögu.

Í DAG FÓR ÉG Í FYRSTA BÍLATÍMANN MINN

Anna Hugadóttir víóluskrímsl, sem hingað til hefur verið stikkfrí í ökuferðum um landið, sem aldrei hefur þurft að sækja nokkurn mann á fyllerí (bögglaberi á hjóli ekki meðtalinn) eða skutla fólki út á völl hefur hafið ökunám. 10 árum á eftir áætlun. Betra er seint en aldrei.

Ekki drap ég nokkurn mann í þessum fyrsta ökutíma mínum. Né heldur drap ég á bílnum. Það þótti mér afar skemmtilegt.

Hins vegar flissaði ég allan tímann.


Hollendingurinn

Gerben litli bróðir er farinn heim eftir mikla ævintýraferð þar sem hæst bar að hans mati leik fjögurra sela milli jakanna við Jökulsárlón (en sætt). Ég gekk næstum því frá hans hollenska sjálfi með því að fara með hann Fimmvörðuháls. Samt tókum við leiðina á tveimur dögum. Þegar við vorum komin upp að Baldvinsskála og hann sá hversu langt var í skála Útivistar þar sem við ætluðum að gista um nóttina rak hann upp ramakvein, lýsti því yfir að Íslendingar væru geðveikir masókistar og það ætti að setja upp rúllustiga og kláfferjur á hálendið svo venjulegt fólk gæti komist leiðar sinnar án þess að drepa sig. Það fannst mér rottufyndið. Ennþá fyndnari fannst mér svipurinn á drengnum þegar hann átti að fara að handstyrkja sig í keðju niður Heljarkamb.

Þó skildi hann, þegar við fórum malarborinn hringveginn austanlands nokkrum dögum síðar, að hér eru aðrir hlutir meira aðkallandi en að setja uppp kláfferjur á hálendinu fyrir lofthrædda ferðamenn í slæmu gönguformi.


Víóluskrímslið - á faraldsfæti

laugardagur, júní 17, 2006

Þroski

Ég hef þroskast heilmikið síðastliðin fjögur ár. Að minnsta kosti er ég hætt að fá hjartsláttarstruflanir og missa svefn þegar ég lendi í slag við búrókrata og möppudýr.

LÍN neitar að borga mér námslán fyrr en einkunnirnar frá Finnlandi hafa verið samþykktar í Hollandi. Þangað til í gær neitaði skólaskrifstofan í Hollandi því að einkunnirnar hefðu komist til skila. Það er ekki gott, en öfugt við undanfarin ár er mér merkilega sama. Kannski vegna þess að ég er komin heim og á góða að sem gefa mér að borða.

Í fyrradag fékk ég svo þykkt umslag með alls kyns mikilvægum pappírum sem ég þarf að fylla út og senda. Ég sé til hvenær ég nenni því.

Svona verður maður afslappaður með aldrinum.


Holland

Þegar fólk spyr mig hversu mikið ég eigi eftir af Hollandsdvölinni þarf ég aldrei að hugsa mig um áður en ég svara. Það eru nákvæmlega 4 mánuðir.

Mig grunar að ég muni telja niður frá fyrsta degi.

Annars er allt að verða vitlaust þar núna þar sem nýr stjórnmálaflokkur pedófíla, NVD (Naastenliefde, Vrijheid en Diversiteit) eða Náungakærleikur, Frelsi og Fjölbreytni, verður stofnaður næstkomandi miðvikudag. Á stefnuskrá flokksins er lögleiðing barnakláms og harðra fíkniefna, afnám kynferðislegs lögaldurs og vegaumbætur.

Hollendingar eru ótrúlegir.


Víóluskrímslið - með puttann á púlsinum

miðvikudagur, maí 31, 2006

Það er komið að því

Ég er á leið heim á morgun. Í fyrsta sinn í fjögurra ára sögu minni sem útlagi og víóluskrímsl fylgja því blendnar tilfinningar. Síðustu þrjú vor hef ég verið hoppandi kát yfir því að fara heim að vori - en að þessu sinni væri ég alveg til í að vera aðeins lengur. Að því gefnu að fjölskylda mín og vinir flyttust til Finnlands, að sjálfsögðu.

Það er gott að búa í Finnlandi. Hér hefur mér liðið afar vel. Hver veit nema ég komi hingað aftur.

Sem fyrr verður hægt að ná í mig í síma 6943592 á heimaslóð. Sjáumst!!


Víóluskrímslið - kiitos kaikille, ja hyvää yötää

mánudagur, maí 29, 2006

Afsakið á meðan ég æli

Þegar ég las um nýjan meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknar í Reykjavík varð mér skyndilega illt. Það er eins gott að maður er fátækur námsmaður í boði ríkisstjórnar sömu flokka, annars hefði ég kannski haft einhverju að æla.

Megi alheimsvaldið hjálpa okkur öllum.

Ekki ældi nokkur einasti maður í kveðjupartíinu sem ég hélt síðasta föstudag. Þar fór heldur enginn að grenja, enginn á bömmer, enginn rauk út í fússi og hvorki helltist nokkuð niður né brotnaði. Þvert á móti skemmtu menn sér vel og voru glaðir. Ég fékk barbapabbabol og múmínkönnu frá skólasystkinum mínum. Það gladdi mitt litla hjarta.

Það er augljóst að með nýjustu úrslit sveitarstjórnarkosninganna í huga þarf ég að ganga í barbabolnum á hverjum degi til að halda sönsum. Almáttugur.


Víóluskrímslið - hrætt

laugardagur, maí 27, 2006

Sérréttur Harra

Síðastliðið fimmtudagskvöld brá ég mér af bæ og fór á einn vinsælasta næturklúbb Helsinki með Önnu og Matiasi. Þar hlustuðum við á skemmtilega hljómsveit og bárum saman klæðaburð okkar og annarra gesta. Við komum heldur illa út í samanburðinum enda þorri manna á staðnum í flíkum sem kosta meira en mánaðarleg matarinnkaup mín. Ég er enn hissa á að dyraverðirnir skuli hafa hleypt okkur inn í gallabuxum og bómullarbolum.

Eftir tónleikana ákváðum við að fara og fá okkur að borða fyrir svefninn. Þegar Anna og Matias komust að því að ég hafði aldrei farið á finnskt næturgrill vildu þau bæta úr því þá og þegar. Því lögðum við leið okkar til grillsjoppu Harra, Harrin Grilli.

Í finnskum næturgrillsjoppum er um auðugan garð að gresja fyrir þá sem eru hrifnir af brenndum eða örbylgjuhituðum fitugum mat og það var erfitt að velja á milli kræsinganna. Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að skella okkur á þrjá skammta af sérrétti Harra, Harrin Parempi. Sérréttur Harra samanstendur af hlemmstóru brauði fylltu með kjötbollu, steiktu eggi, lauk, súrum gúrkum, hálfu salatblaði - og tveimur pylsum - auk eins mikils majóness og manni finnst við eiga. Úr verður heljarinnar loka, enda féllust mér nánast hendur þegar átti að fara að borða herlegheitin.

Fyrstu tveir bitarnir voru afar góðir enda var ég orðin sársvöng. Þriðji bitinn virtist heldur fitugri en þeir fyrstu.Við þann fjórða fannst mér engu líkara en ég fyndi fyrir sérrétti Harra troða sér inn í kransæðarnar. Með herkjum tókst mér að éta rúman helming lokunnar. Restin fór í ruslið sem mér þótti ekki gott enda hef ég aldrei kunnað við að henda mat.

Næst fæ ég mér borgara og franskar.


Víóluskrímslið - parempi

fimmtudagur, maí 25, 2006

Sögulegur viðburður 1

Um síðustu helgi komu pabbi og mamma til mín í heimsókn. Það fannst mér gaman. Þau hafa nefnilega aldrei getað heimsótt mig í útlöndum fyrr en nú.

Að sjálfsögðu gerðum við okkur margt til gamans og ég held ég geti fullyrt að þeim hafi ekki leiðst þessa rúma fjóra daga sem þau stöldruðu við. Meðal annars fórum við á þjóðminjasafnið þar sem við flissuðum að hönnuninni á umbúðunum á finnska þvottaefninu ATOMI sem framleitt var á fimmta áratug síðustu aldar. (Vísbending; sprengiský og gígur)

Auk þess fórum við út í virkið Suomenlinna, út að borða á traktoraveitingastaðnum Zetor, í bæjarferð (þar sem 4 nýjar múmínkönnur bættust í safn heimilisins) og á tónleika. Laugardeginum og fyrrihluta sunnudagsins eyddum við í sumarbústað foreldra Önnu vinkonu minnar þar sem við fórum í alvöru finnska reyksánu, "syntum" í vatninu, fórum í bátsferðir og horfðum á Finnland vinna Eurovision.

Á leiðinni út á flugvöll tókst mér að týna nýju fínu göngustöfunum sem mamma hafði keypt í bæjarferðinni og við pabbi pakkað inn af alkunnri snilld. Það þótti mér leiðinlegt. Þau undur og stórmerki gerðust þó nokkrum dögum síðar að mamma fékk sms frá manni sem fundið hafði pakkann. Ég sótti stafina í gær. Allt er gott sem endar vel.


Sögulegur viðburður 2

Það hefur varla farið fram hjá neinum að Finnar unnu Eurovision í ár. Enda var erfitt að gefa LORDI klisjustig þegar sveitin steig á svið í Aþenu.

Þeir voru ekki

-allsberir
-með fáklædda dansara á sviðinu
-nuddandi sér upp við téða dansara í einni dónalegri stellingu
-falskir svo skar í eyrun
-í hvítu

Lagið var ekki

-júropopp
-Shakirukóver
-óeftirminnilegt
-með hækkun

...og fjallaði ekki um ást. Sem mér fannst það allra besta. Lordi eru vel að sigrinum komnir. Evrópa hefur kveðið upp sinn dóm! Út með vælið og allsberu stelpurnar! Inná með rokkið og latexið!


Víóluskrímslið - hipp og kúl

miðvikudagur, maí 17, 2006

Fótógen

Systir mín er fótógen. Enda var hún fyrirsæta um skeið, eða alveg þar til einhver skipaði henni að hætta að borða nammi. Hún hætti í módelbransanum. Skynsamleg ákvörðun það.

Ég er ekki fótógen. Af öllum þeim þúsundum mynda sem teknar hafa verið af mér á lífsleiðinni eru aðeins nokkrar þess virði að líta megi á þær oftar en einu sinni. Þegar ég var nýfædd var ég svo rangeyg að ég leit út eins og geimvera á myndum. Sem krakki þjáðist ég af reflex sem olli því að ég gat ekki brosað framan í myndavél án þess að reka út úr mér tunguna um leið. Það eltist sem betur fer af mér.

Skólamyndirnar, fermingarmyndirnar, jafnvel stúdentsmyndirnar bera þess merki að mér líður herfilega fyrir framan myndavélar. Ég reyni mitt besta til að brosa og horfa björtum augum í myndavélina - en á einhvern óútskýranlegan hátt kemur það aldrei fram á pappírnum. Það finnst mér mikil synd enda finnst mér ég voða sæt, sérstaklega þegar ég hef munað eftir því að greiða mér og pússa gleraugun.

Í dag sannaðist það enn sem fyrr að ég er ekki fótógen. Ég fór í passamyndakassa á járnbrautarstöðinni - rétti úr mér fyrir framan myndavélina, brosti mikilvæga sjálfsörugga brosinu mínu og gætti þess að vera ekki með lokuð augun - og beið eftir smellunum fjórum. Þegar myndirnar runnu út úr vélinni sá ég að ég leit út eins og Ástþór Magnússon á þeim öllum. Hvers vegna er ég að þessu.


Víóluskrímslið - náttúrulega gott

laugardagur, maí 13, 2006

Mahler

Mahler dagsins verður best lýst sem "fúskató brilljante".

Synd.


Lesendabrjef

Í Metró gærdagsins gaf að líta eftirfarandi lesendabréf

Kæra tónlistarfólk sem fer um Ruoholahti neðanjarðarlestarstöðina
Hafið þið gert ykkur grein fyrir því að þið takið rosalegt pláss í rúllustiganum með þessa kassa ykkar.
Auk þess fer humm og raul illilega í taugarnar á mér.
Virðingarfyllst,
Argghhh


Á morgun

ætla ég að spila í messu á vegum Íslendingafélagsins.

Enda fór ég snemma heim af barnum.



Víóluskrímslið - rasch und schnell

miðvikudagur, maí 10, 2006

B.O.B.A

Vorið lét bíða eftir sér hér í Helsinki en þegar það loksins kom, kom það með stæl. Fyrir tíu dögum síðan voru ekki komin nein lauf á trén. Nú er allt orðið grænt og sólin skín allan daginn og langt fram á kvöld. Íkornar og kanínur vappa um í garðinum fyrir utan fermetrana 44 og mávarnir syngja fagran eggjaþjófasöng. Sannkölluð bomba. B.O.B.A.

Í kvöld hélt bekkurinn minn tónleika í hátíðarsal skólans og tókst öllum vel upp. Sjálf spilaði ég sólósónötu Hindemiths op. 25, sagaði víóluna næstum því í sundur í 4.kafla (rasendes Zeitmass, wild, Tonschönheit Nebensache) og hlaut hrós fyrir. Eftir tónleikana héldu bekkjarbræður mínir á barinn. Ekki ég. Í fyrramálið þarf ég að mæta snemma í skólann og kljást við 5. sinfóníu Mahlers. Mér finnst Mahler rosalega fyndinn. Hvaða annað tónskáld skrifar út nákvæm 32parta hlaup í brjálæðislegu tempói með alls konar fingurbrjótum og aukaformerkjum - og skrifar svo glissando ofan við herlegheitin? Ertu að gera grína að mér, Gústaf?

(Gústaf svarar ekki enda löngu dauður)

Í næstu viku mun draga til tíðinda því þá koma pabbi og mamma í heimsókn. Þetta verður í fyrsta sinn sem þau heimsækja mig í útlegðinni. Nú bý ég svo vel að geta boðið þeim gistingu þar eð ég fattaði um daginn að sófinn í stofunni (sem ég hef setið í í fjóra mánuði og ryksugað reglulega) er svefnsófi. Það kom skemmtilega á óvart. Nú vona ég bara að veðrið haldist gott. Annars förum við bara á þjóðminjasafnið.


Víóluskrímslið - allt að gerast

laugardagur, maí 06, 2006

Kveikjum eld

Í gær tók einhver sig til og kveikti í gömlu vöruskemmunum við járnbrautarstöðina í Helsinki. Undanfarið hefur staðið heilmikill styrr um þessi hús enda stóð til að rífa þau til að rýma fyrir
nýju tónlistarhúsi. Finna vantar nefnilega almennilegt tónlistarhús. Eins og fleiri.

Í síðasta mánuði voru húsin rýmd. Síðan þá hefur löggan verið með stöðuga vakt við pleisið. Á Valborgarmessu, aðfaranótt 1. maí, tók hópur manna sig til og safnaði saman í myndarlega brennu við eina skemmuna. Sjálf sá ég bálið ekki enda var ég upptekin við að týna ekki stúdentshúfunni minni á þeirri stundu. Aðstandendum brennunnar hafði að vísu láðst að fá leyfi fyrir herlegheitunum. Þar sem menn létu auk þess heldur ófriðlega var víkingasveitin send á staðinn. Bömmer fyrir þá sem voru á bakvakt.

Í gær ákvað svo einhver að klára dæmið og gekk rösklega til verks. Eftir því sem ég best veit labbaði brennuvargurinn sig inn á svæðið um miðjan dag og kveikti í. Úr varð svakalegt bál sem breiddist hratt út í allar skemmurnar á svæðinu. Reykský lagðist yfir miðbæinn og allar samgöngur um Mannerheimintie,eina aðalumferðargötu Helsinki, stöðvuðust. Í gærkvöldi var sérdeilis gott veður, hlýtt og milt. Þar af leiðandi myndaðist sannkölluð áramótastemmning þar sem menn flykktust að tröppunum við þinghúsið og fylgðust með slökkviliðinu að störfum með öl í hönd.

Þegar ég átti leið hjá seint um kvöld logaði enn glatt í vöruskemmunum. Það er hætt við að lítið sé eftir af þeim núna.


Víóluskrímslið - skúbb

föstudagur, maí 05, 2006

Fjölbreytileiki mannlífsins

1.
Fyrir rúmri viku spurði lítill drengur mig hvort ég væri manneskja eða barn. Fyrir honum skiptist fólk nefnilega í þessa tvo flokka og hann var ekki viss hvoru megin hann ætti að setja mig. Ég sagðist vera barn. Þá er það komið á hreint.

2.
Ég skrapp í sund í gærkvöld. Í sturtunni gaf að líta rauðhærða leggjalanga Artemis og íturvaxna biksvarta frjósemisgyðju. Fegurðin holdi klædd.

3.
Í neðanjarðarlestinni gaf maður sig á tal við mig sem vildi vita hvað væri í víólukassanum mínum. Þegar ég var búin að útskýra það spurði hann mig hvaðan ég væri. Ég sagðist vera frá Íslandi. Maðurinn, sem var af suðrænum uppruna, vildi þá endilega fá að taka í höndina á mér því hann hafði aldrei hitt Íslending áður. Það var auðsótt mál.


Víóluskrímslið - I´m not a girl, not yet a woman (múhahahahahahahaha)

mánudagur, maí 01, 2006

1. maí

Í gær eyddi ég baráttudegi verkalýðsins fjarri heimahögum fjórða árið í röð. Síðastliðin 3 ár hefur mér grautleiðst á þessum degi og ég séð kröfugöngur og rússneskt rækjusalat á la MÍR í hillingum í eymd minni. Í gær kvað svo sannarlega við annan tón.

Í fyrrakvöld þvældist ég milli partía með Önnu, Matiasi og vinum þeirra. Íslenska stúdentshúfan vakti gríðarlega lukku. Margir urðu til þess að gefa mér í glas vegna þess eins að ég átti flottustu húfuna á svæðinu. Það leiddi svo til þess að ég ákvað að fara heim öllu fyrr en ætlað var. Það gerist ekki oft.

Eldsnemma í gærmorgun vaknaði ég kát og afar hress, klæddi mig í fjólurauða samfestinginn, skellti húfunni á úfinn kollinn og hélt niður að sjó þar sem fjölskylda Matiasar var búin að dúka borð í blíðskaparveðri innan um tugþúsundir annarra Helsinkibúa í sömu erindagjörðum. Ég fékk pylsur og kartöflusalat í morgunmat og lyftist þá vel á mér brúnin. Deginum var svo eytt við söng og spil, þar sem Matias lék á ferðaharmóníum fjölskyldunnar, Anna á gítar og ég fór hamförum á slagverkinu. Við fórum í gegnum 50 vinsælustu slagarana aftur og aftur og menn sungu með fullum hálsi. Svo voru kökur og kaffi, ungt par trúlofaði sig og allir fóru að skæla.

Heim komst ég við illan leik enda allar almenningssamgöngur tepptar vegna mannfjöldans. Þar kveikti ég á BBC World og horfði góða stund á slæmar fréttir víðsvegar að úr heiminum. Sá sem ég hringdi í til þess að létta mér lund eftir þau ósköp hafði engan tíma til að vera skemmtilegur við mig. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott því eftir það símtal veit ég heilmargt um hina ýmsu lifrar- og nýrnasjúkdóma. Hver veit nema sú vitneskja komi mér einhvern tímann að notum. Jafnvel þó ég hafi ekki beint verið að sækjast eftir henni.


Víóluskrímslið - abupp

sunnudagur, apríl 30, 2006

10 stig og sól

Það var sko ekkert farið að snjóa. Þvert á móti heilsaði Helsinki mér með virktum á föstudag með sól og blíðu. Í dag skín sólin líka eins og henni sé borgað fyrir það og hitamælirinn á svölunum lýsir því yfir að úti sé 10 stiga hiti. Það gleður marga, sérstaklega í dag. Á slaginu 18 hefst Vappu, 1. maí hátíðahöld Finna. Þá fyllist bærinn af stúdentum sem gera sér glaðan dag, kvöld og nótt þangað til þeir geta ekki staðið á fótunum lengur. Svo er mæting í Kaivopuisto klukkan 9 í fyrramálið, þar sem sunginn verður hópsöngur (Finlandia eftir Sibelius 100x), drukkinn afréttari og borðuð síld í vanmáttugri tilraun til að hrekja þynnkuna burt. Sannkölluð þjóðhátíðarstemmning.

Eftir um það bil 3 tíma mun ég klæðast fjólurauðum samfesting utan yfir lopapeysuna og setja stúdentshúfuna mína í poka ásamt freyðivínsflösku og nesti. Anna og Matias munu bíða mín niðri í bæ þaðan sem við munum halda á áður ókunnar slóðir.

Spennó.


Víóluskrímslið - hauskaa Vappua!

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Fljúgandi blóm

Í dag skín sólin í H-landi. Fuglarnir syngja, krákurnar garga, trén blómstra og túlípanarnir líka. Drengirnir taka fram léttara gel í stad extra strong vetrartýpunnar, stúlkurnar klaedast ósýnilegum fötum og haegt er ad sitja úti á kvöldin med öl í hönd.

Thetta veit ég vegna thess ad ég skrapp til H-lands thessa vikuna til thess ad fara á masterklass med gudfödur h-lenskra og íslenskra víóluleikara, Ervin Schiffer.

Herra Schiffer aepti og öskradi stanslaust í thrjá daga. Ekki svo ad skilja ad hann hafi ekki verid sáttur vid frammistödu mína og bekkjarfélaga minna. Herra Schiffer öskrar mjög mikid thegar hann er ad kenna. Til thess ad leggja frekar áherslu á ord sín lemur hann í bord og stóla, stappar fótunum í gólfid og danglar reglulega í flygilinn á svaedinu. Auk thess hoppar hann töluvert sem verdur ad teljast merkilegt thar sem hann er kominn vel yfir sjötugt.

Thetta var hressilegt námskeid og ég er ekki frá thví ad sólósónata Hindemiths op. 25 fyrir víólu sé ordin heldur audveldari vidfangs. Auk thess hitti ég flesta sem ég vildi hitta og engan sem ég vildi ekki hitta. Thad er mjög gott.

Eldsnemma í fyrramálid fer ég aftur til Finnlands. Anna Hinkkanen laug thví ad mér ad thad vaeri farid ad snjóa thar aftur. Ég vona allavega ad hún hafi verid ad skrökva.

Víóluskrímslid - á faraldsfaeti

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gleðilegt sumar!

Í dag er sumardagurinn fyrsti. Hitamælirinn á svölunum sýnir 4 gráður á celcíus. Það er allt í stíl.

Hér í Helsinki eru hvorki farnar skrúðgöngur né grillaðar pylsur í dag svo ég þarf að finna mér eitthvað annað til dundurs eftir skóla. Ég er að hugsa um að fara og kaupa mér strigaskó í boði móður minnar - á uppsprengdu gengisfellingarverði.

Það er fátt betur fallið til þess að koma manni í gott skap.


Víóluskrímslið - hugleiðir heiftina burt

mánudagur, apríl 17, 2006

Árið sem ég missti trúna

Fjölskylda mín verður seint talin trúrækin. Hingað til hefur kirkjusókn innan hennar falist í skírnum, brúðkaupum og jarðarförum auk þess að hafa kveikt á útvarpsmessunni á meðan menn spæna í sig jólalambið. Þetta ræktarleysi við almættið í uppeldi mínu kom þó ekki í veg fyrir það að ég trúði heitt á Guð sem lítið barn. Ég sótti sunnudagaskóla af mikilli natni, afskiptalaust af hálfu foreldra minna sem fannst ágætt að við systurnar hefðum eitthvað að gera á sunnudagsmorgnum fyrst við vorum ekki með Stöð 2.

Við Guð vorum ágætis félagar á þessum tíma. Ég bað bænirnar mínar samviskusamlega og signdi alla bangsana í barnaherberginu áður en ég fór að sofa. Í sunnudagaskólanum kunni ég öll lögin og söng barna hæst Guði til dýrðar. Faðirvorið gegndi hlutverki möntru sem ég þuldi í belg og biðu ef ég þurfti að labba heim í myrkri eða þegar ímyndunaraflið var að hlaupa með mig í gönur. Það var ágætt að eiga Jesú hinn besta vin barnanna að þegar maður var hræddur eða leiður. Verst að bænirnar , hversu heitar sem þær voru, virtust aldrei ná í gegn um skiptiborð himnanna. Gilti þá einu hvort maður bað um jólasnjó, frið á jörð, bætt efnahagsástand heimilisins eða að Guð tæki af lífi þá sem stríddu mér í skólanum.

Smátt og smátt komst ég að því að Guð gæti ekki verið bæði almáttugur og algóður, því væri hann það væri ekki svona mikið um óréttlæti í heiminum. Í leit að svörum las ég biblíusögurnar fram og aftur. Sumar voru ágætar, eins og sagan um góða Samverjann. Aðrar voru ekki eins skemmtilegar. Mér fannst til dæmis ekkert sniðugt af Guði að heimta það af Abraham að hann myrti son sinn Guði til ánægju - og segja svo bara allt í plati þegar Abraham reiddi rýtinginn til höggs. Mér fannst sagan um Job einnig afar ógeðfelld. Ég skildi ekkert í Job að hlýða þessum Guði sem að mínu mati hagaði sér eins og óþolandi ofdekraður asni. Boðorðin 10 ollu mér miklum heilabrotum. Afhverju máttu menn ekki eiga aðra Guði? Var til annar Guð sem minn Guð var afbrýðisamur útí eða var hann bara að baktryggja sig? Hvert var málið með að mega ekki girnast nokkuð það sem náungi manns ætti, þar með talið eiginkonu hans? Átti hún sig ekki sjálf? Af hverju var Guð að drepa fólk alltaf hreint? Og hvers vegna þurfti Jesús að deyja fyrir syndir mannanna þegar hann virtist vera hreint ágætis maður og sá eini með viti á svæðinu?

Smátt og smátt byrjaði ég að skapa mínar eigin kenningar um tilvist Guðs. Guð gat vel verið algóður, en hann var alls ekki gallalaus. Ímynd mín af Guði þróaðist út í mynd af eldri manni með sítt skegg sem sat á skýi og fylgdist með heimi sem hann hafði einu sinni skapað í bríaríi án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hversu mikið vesen yrði að halda honum við. Manni sem tautaði í skeggið þegar bænir bárust upp til himins og var með móral yfir því að geta ekki svarað þeim öllum - og fengi stundum barnaleg ofsaköst þegar honum þætti lífið vera orðið of erfitt og mennirnir of heimskir. En samt ágætis kall. Jafnvel þó honum þætti gaman að stríða mönnum svona af og til og biðja þá um að myrða börnin sín til þess eins að fá tækifæri til að festa íslenskt fjallalamb í nálægan runna.

Mér datt aldrei í hug að það væri eitthvað að þessari kenningu minni um almættið. Ég stundaði sunnudagaskólann samviskusamlega og á leiðinni þangað veifaði ég til Guðs sem ég var viss um að sæti á skýi beint fyrir ofan Breiðholtið og vinkaði til baka, ánægður með að ég væri á leið í kirkjuna að syngja and-femíníska söngva um að ég vildi líkjast Rut sem var svo sönn og góð, en Daníel fylltur hetjumóð. Það var ekki fyrr en ég átti að fermast sem mér var ljóst að kenning mín var stórgölluð.

Á þeim vetri sem ég gekk til prests, staðráðin í því að fermast og gefa Jesú hjarta mitt, vann hin Lútherska Evangelíska kenning óbætanlegan skaða á minni traustu barnatrú. Ég fékk að vita að Guð væri andi og að vissu leyti væri Jesús það líka og svo væri sá þriðji sem enginn hafði séð en fengi menn reglulega til að tala tungum. Guð væri víst almáttugur og algóður og upphlaup hans væru öll verðskulduð af mönnunum. Ég lærði líka að allar þjáningar mannkyns og ástæðan fyrir því að fjölskylda mín hafði ekki efni á að fara til sólarlanda eins og allt almennilegt fólk væri sú að Eva heitin hefði bitið í girnilegt epli fyrir mörgþúsund árum. En reiðarslagið kom ekki fyrr en mér var tjáð að páfagaukarnir mínir, sem ég hafði kvatt með miklum trega fullviss um að þeirra biði betri staður á himnum en gasklefinn á dýraspítalanum í Víðidal, væru alls ekkert á himnum. Þeir væru hvergi, því dýr hefðu ekki sál.

Þann dag fór ég heim úr fermingarfræðslunni með djúpa sorg í hjarta. Þegar ég svo stóð fyrir framan altarið í Seljakirkju nokkrum vikum síðar til að staðfesta skírnarheitið var ég orðin forhertur trúleysingi.

Við tók tími þar sem ég reifst grimmilega við trúað fólk og slengdi fram sleggjudómum um heimsku þeirra sem trúa. Það geri ég ekki lengur enda hef ég tekið almættið í sátt. Það tók mig nefnilega langan tíma að átta mig á því að kenningar eru jafn fáfengilegar og mennirnir sem semja þær. Í dag er mér slétt sama um trú. Menn mega trúa á það sem þeim sýnist svo lengi sem þeir eru ekki að þröngva því upp á mig eða myrða aðra menn á fölskum forsendum.

Helgidómur hvers manns er innra með honum og í kringum hann. Minn helgidómur er hálendi Íslands á sólbjörtum sumardegi og svanir fljúgandi í austur.


Víóluskrímslið - mannvinur

laugardagur, apríl 15, 2006

Fiðlubarn sem ekki er

Þegar ég sveif yfir vefblöðin áðan eins og fálki í leit að bráð sá ég auglýsingu sem fékk metnaðarfulla fiðlukennarahjartað mitt til að missa úr slag. Fiðlubarnið í afreka-auglýsingaherferð Landsbankans er laglegasti hnokki sem eflaust á eftir að bræða mörg meyjarhjörtun síðarmeir. En reigt bakið, stífur hálsinn, útstæður vinstri úlnliðurinn og óskiljanlegt bogagripið gáfu það til kynna að drengurinn hafi annað hvort aldrei áður haldið á fiðlu eða sé einn af þeim fiðlunemum sem virðast vera með liðamót úr óhreyfanlegu ísaldargraníti.

Á 10 sekúndum hafði ég greint líkamsstöðu piltsins og örfáum sekúndum síðar var ég búin að skapa neyðaráætlun um það hvernig lagfæra mætti ástandið.

Ég held að ég sé farin að taka námið aðeins of mikið inn á mig.


Londonlamb

Í dag skrapp ég í matvörumekkað S-market með Steinunni Skjenstad. Ætlunin var að kaupa lambalæri sem ætlunin er að elda á morgun handa okkur og fleiri íslenskum útlögum í Helsinki. Eftir miklar pælingar skelltum við einu plastpökkuðu í innkaupakörfuna og héldum heim.

Það var svo ekki fyrr en í kvöld, þegar ég ætlaði að fara að krydda þetta heljarinnar læri eftir kúnstarinnar reglum að ég komst að því að það sem á finnsku kallast lambalæri með legg er í raun það sem á íslensku heitir londonlamb.

Ég mun því skipta timjaninu og rósmaríninu út fyrir hunang og sinnep á morgun. Svepparjómabombusósa og brúnaðar kartöflur ættu ekki að svíkja nokkurn mann. Frekar er finnsku grænu baunirnar.


Víóluskrímslið - matur er mannsins megin

föstudagur, apríl 14, 2006

Vor í lofti

Í dag skein sól á sumardegi í Helsinki. Ég uppveðraðist öll við þau ósköp, skrapp í bæinn og keypti mér fagra túlípana á páskaborðið. Þar eð fermetrarnir 44 báru ótvíræð merki dvínandi drepsóttar og almennrar gengisfellingar undanfarinna daga tók ég til svo íbúðin yrði í stíl við blómin. Það er ekki smart að stilla nýskornum túlípönum upp með notaðan snýtupappír, skítug náttföt og Wallander reyfara af bókasafninu út um öll gólf.

Eftir þetta upphlaup lagðist ég endilöng í nýryksugaðan sófann og lét mig dreyma um páskaeggið sem ég ætla að borða á sunnudaginn í góðum félagsskap á meðan fjölskyldan heima á Íslandi safnast saman heima hjá ömmu, borðar vöfflur og gerir grín að málsháttum hvers annars. Næsta ár verð ég heima á páskunum.

Það er ekki langt þangað til.

Víóluskrímslið - pásk

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Halldór Ásgrímsson

lýsir því yfir í fjölmiðlum að honum þyki nýjasta gengisfellingin bæði sniðug og vel til fundin.

Það finnst mér ekki.

Hreint alls ekki.


Víóluskrímslið - ekki skemmt, hreint alls alls ekki skemmt.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Mestu velgjörðarmenn mannskyns

...hljóta að vera þeir sem fundu upp tetracýklínlyfjabálkinn og frunsukremið.

Í dag sá ég íkorna í trénu fyrir utan stofugluggann og þegar ég ruslaðist á æfingu í kvöld fann ég brum á nokkrum trjágreinum við strætóskýlið.

Þetta er allt að koma.


Víóluskrímslið - að skríða saman

mánudagur, apríl 10, 2006

Drepsótt aldarinnar

Þar kom loksins að því. Vorflensan hefur haldið innreið sína í ónæmiskerfi víóluskrímslisins. Það er fátt sem mér finnst ömurlegra en að vera lasin. Sérstaklega þegar mig langar að æfa mig og get það ekki. Það er bömmer. Samt verður að taka tillit til þess að þetta er fyrsta drepsóttin í ár sem hlýtur að teljast framför frá því í fyrra þegar ég var með stanslaust myglukvef í marga mánuði.

Eftir að hafa haldið vöku fyrir sjálfri mér og öllu húsinu tvær nætur í röð með hósta, ræskingum og hreppstjórasnýtingum án nokkurs bata, ákvað ég í gærkvöldi að mál væri að leita læknis. Ég hringdi því í læknavaktina. Þar svaraði eldri hjúkka símanum - sem talaði ekki ensku. Þar sem finnskukunnátta mín takmarkast að mestu leyti við orðaforða sem notaður er á öldurhúsum og í leigubílum neyddist ég til að bregða fyrir mig minni brotakenndu skandinavísku. Milli hóstakviðanna útskýrði ég fyrir furðulostinni hjúkkunni að "jag er svært forkylad og at jag ma se en läkare, so snart som möjligt." Þessi hræringur af öllum norðurlandamálunum virkaði þó nógu vel til þess að verða mér út um tíma hjá heimilislækni nú á eftir.

Halelúja. Himnarnir opnast með englasöng.

Ég nota kannski tækifærið og spyr lækninn hvort undarlegur verkur í bakinu sé tognun eftir skíðaferðina. Frábært.

Víóluskrímslið - fullt af hor, teygt og togað

laugardagur, apríl 08, 2006

Lappland

Mikið var gaman í Lapplandi. Þau Anna og Matias fórnuðu stórum hluta vikunnar í að kenna mér á skíði, með ágætis árangri. Nú kann ég að minnsta kosti að hægja á mér í brekkunum, sem er stór kostur. Sérstaklega þegar það er svartaþoka á toppnum og maður sér ekki neitt. Auk þess komst ég að því að það er minna mál að ganga upp brekkur á gönguskíðum en að renna sér niður þær.

Kvöldunum var eytt í góðum félagsskap í sánunni og á karaókebar staðarins þar sem við fórum á kostum syngjandi gamla slagara með finnskum textum eins og "No niin, no niin, Mary Lou" og "Ei ei ei, Delilah." Engin sá ég þó norðurljósin í þetta sinn.

Þrátt fyrir að hafa dottið milljón sinnum á rassinn við ýmis tækifæri er ég enn í heilu lagi og óbrotin, það er fyrir öllu. Enda tekur nú lokaspretturinn við og þá þarf maður á öllu sínu að halda.

Víóluskrímslið - blátt og marið

föstudagur, mars 31, 2006

Föstudagur í Helsinki

Eins og Íslendingar eru Finnar miklir túramenn - sérstaklega þegar drykkja er annars vegar. Hér er alkóhólismi landlægt vandamál en öfugt við þróunina heima á Íslandi þar sem menn segja stoltir frá því í fjölskylduboðum að þeir séu komnir í AA leitar fólk hér sér sjaldnast hjálpar við áfengisfíkn. Alkóhólismi er hálfgert feimnismál í Finnlandi. Það finnst mér pínulítið fyndið enda hef ég hvergi séð eins mikið af rónum og hér.

Með því að nota orðið "róni" á ég ekkert endilega bara við útigangsmenn. Ef eitthvað er eru þeir yfirleitt edrú blessaðir. Finnskir rónar eiga oftar en ekki fjölskyldur og þak yfir höfuðið. Þeir eru hins vegar túradrykkjumenn sem leggjast út nokkra daga í senn og snúa svo til baka í faðm fjölskyldunnar, illa til reika og úrvinda eftir taumlausa drykkju. Finnar standa mjög framarlega í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og í takt við það eru líka heilmargir kvenkyns rónar á ferli. Oftar en ekki afar vel til fara - þó varaliturinn hafi kannski ekki alveg endað á réttum stað.

Í dag er föstudagur. Það þýðir að annar hver maður í neðanjarðarlestinni er fullur. Það finnst manni nú bara kósí enda slær það á heimþrána að finna bjórfnykinn svífa yfir vötnum og hlusta á umlið í miðaldra konum með tígrisdýrasólgleraugu sem eru búnar að missa af stoppinu sínu tvisvar í röð. Stundum þarf maður að lyfta undir fólk svo það klemmist ekki í hurðinni á leiðinni út eða hrynji niður af bekknum sem það situr á. En það er nú bara sjálfsagður náungakærleikur.

Í dag var ég í strætó á leið niður í bæ þegar unglingsstúlka nokkur kastaði upp yfir sig alla. Mér sýndist hún eiga í mestu erfiðleikum með að átta sig á því hvað hefði komið fyrir enda leit hún til skiptis á rennblautar hendurnar á sér og á pollinn á gólfinu. Eftir smá stund gerði ég mér grein fyrir því að ég var líklegast eina manneskjan í strætó sem þótti þetta undarlegt athæfi. Þegar strætóinn náði endastöð potaði ég í stúlkuna sem virtist vera á góðri leið með að svífa inn í algleymið og togaði hana út úr strætó. Hún hreyfði engum mótmælum þegar ég lét hana halla sér upp að vegg svo hún dytti ekki. Heldur ekki þegar ég skrapp inn í næsta banka og bað þjónustufulltrúa að hringja á lögregluna svo hún gæti sofið úr sér á öruggum stað. Þegar löggan kom var hún hins vegar ekki eins ánægð. Ég missi ekki svefn yfir því.

Ég ætla aldrei að verða róni. Ég er sannfærð um að það sé allt of erfitt fyrir viðkvæmt fólk eins og mig. Maður þarf að vera virkilegt hörkutól til að höndla slíkan lífsstíl. Eða búa yfir mörgum leyndarmálum sem þarf að gleyma.


Víóluskrímslið - í helgarbyrjun

þriðjudagur, mars 28, 2006

Hvernig þvo skal lopapeysu



Næstkomandi laugardag held ég í vikureisu norður til Samalands. Fjölskylda Önnu vinkonu minnar er búin að taka þar á leigu vænan heilsársbústað nálægt Ylläs skíðasvæðinu og við Matias teikum með. Þetta þykir mér afar spennandi enda er búið að lofa mér stjörnubjörtum nóttum og norðurljósadýrð. Þó verður að viðurkennast að ég kvíði örlítið fyrir því að stíga á skíði eftir 12 ára hlé. Síðast fór ég á skíði upp í Bláfjöll með 9. bekk Ölduselsskóla og tókst næstum því að fremja þar sjálfsmorð með því að fara í allar bröttustu brekkurnar - þó ég kynni tæknilega séð ekkert á skíði.

Þó farið sé að hlána hér suðurfrá er enn brunagaddur í norður Finnlandi. Þegar ég fór í gegnum ullarbirgðir heimilisins í huganum á leiðinni heim í strætó áttaði ég mig á því að ég hef ekki þvegið ullarpeysuna mína síðan á síðustu öld. Þar sem ég er við það að leggja upp í mikla háskaför ákvað ég að best að þvo peysuna áður haldið verður af stað. Ef mér verður á að hálsbrjóta mig á skíðum (7,9,13) vil ég allavega vera í hreinni ullarpeysu við það tækifæri.

Ég kom heim og skellti mildu sápuvatni í baðkarið. Ofan í það tróð ég ullarpeysunni og þeim ullarflíkum sem fengið hafa að drekka í sig saltið af götum Helsinki síðan í janúar. Vatnið varð undireins svart. Oj bara. Ég skipti um vatn. Það varð samstundis grátt. Smá framför þar á ferð. Þessu hélt ég áfram góða stund. Hnoðaði ullina varlega ofan í vatninu eins og maður á að gera og tíndi 10 ára gamalt lyng úr kraganum á peysunni. Þegar vatnið var orðið sæmilega tært kreisti ég úr minni ástkæru ullarpeysu, lagði hana á milli tveggja handklæða, setti 123 Selfoss með Love Guru á fóninn og dansaði gleðidans ofan á peysusamlokunni í nokkrar mínútur.

Nú hangir hún til þerris, blessunin, mér og skapara sínum (ömmu) til sóma. Verst að hún verður líklega falin undir neongræum ´80 skíðagalla allan tímann sem við verðum fyrir norðan.


Víóluskrímslið - sérfræðingur

mánudagur, mars 27, 2006

Days of wine and roses

...eða öllu heldur dagar öls og sánu. Mér til mikillar gleði reif Tóti sig úr klóm læknadeildar í nokkra daga og kom í helgarferð til Helsinki. Að sjálfsögðu gáfum við hvort öðru rómantískar gjafir í tilefni þessa, hann fékk strætókort en ég hálft kíló af Nóakroppi og lýsi. Það mátti ekki á milli sjá hvort okkar var ánægðara.

Nú er hann farinn aftur. Það eru tveir mánuðir þar til ég kem heim. Ég er sannfærð um að þeir verða jafn fljótir að líða og þeir þrír sem af eru. Enda hefur mér aldrei liðið jafn vel í útlegðinni og nú. Ég er greinilega ekki gerð fyrir sunnlægar breiddargráður.


Víóluskrímslið - að springa úr heilbrigði

þriðjudagur, mars 21, 2006

Matti

Í gærkvöldi átti ég í mestu vandræðum með að sofna. Því settist ég við tölvuna og hóf að fletta vefblöðunum í gríð og erg. Eftir að hafa flett um stund rak ég upp roknahlátur. Ástæðan var sú, að ég hafði rekist á heilsíðugrein DV um Matta Nykänen, frægustu örlagafyllibyttu Finnlands.

Þeir sem muna eftir vetrarólympíuleikum níunda áratugar síðustu aldar muna ábyggilega eftir Matta Nykänen sem þá rakaði að sér verðlaunum í skíðastökki. Á tíunda áratugnum fór ekki mikið fyrir Matta enda var hann þá löngu hættur að stökkva og farinn að vinna fyrir sér sem einkastrippari dóttur eiganda stærstu pulsugerðarverksmiðju Finnlands. Undanfarin ár hefur Matti þessi ítrekað komist í sviðsljósið fyrir

1) að vera fullur heima hjá sér
2)að vera fullur alls staðar annars staðar
3) að lemja konuna sína
4)að hóta að drepa konuna sína
5)að vera laminn af konunni sinni
6)að flýja morðhótanir konunnar sinnar
7)að byrja aftur með konunni sinni
8)að kæra konuna sína
9)að vera kærður af konunni sinni
10)að gefa út (afspyrnulélegan) geisladisk
11)að hætta með konunni sinni (x 1000)
12)að byrja enn og aftur með konunni sinni (x 1001)
13)að leika í (afspyrnulélegri) mynd um skrautlegt lífshlaup sitt
14)að gefa út (afspyrnulélega) bók um sama lífshlaup
15)að halda fram hjá konunni sinni
16)að neita því að hafa haldið framhjá konunni sinni
17)að hóta meintum elskhugum konunnar sinnar
18)að vera handtekinn fyrir númer 2, 3, 4 og 17
19)að fara reglulega í hljómleikaferðir um Finnland
20)að koma fyrir í hverju einasta slúðurblaði í Finnlandi amk einu sinni í viku eða oftar.

Ég held að það sé rosalega erfitt að vera Matti Nykänen. En hann gleður augu okkar sakleysingjanna.


Víóluskrímslið - ívöl knívöl

sunnudagur, mars 19, 2006

Geir

Eftir að hafa eytt kvöldinu í kvöld yfir leiðinlegum Ruth Rendell krimma í sænskri þýðingu (geri það aldrei aftur) og borðað seigar saltstangir með (gleymdi að loka pokanum í gær) var ég orðin það deprímeruð að ég greip til örþrifaráða.

Litla systir hafði gaukað því að mér að þátturinn Kallarnir á sjónvarpsstöðinni Sirkus væru með steiktara sjónvarpsefni. Mér varð ljóst að til þess að rífa mig upp úr Ruth Rendell hyldýpinu dygðu engin vettlingatök. Ég kveikti því á tölvunni og rakti mig inn á síðu Vísis Veftívís. Þar var úr nógu að velja. Einhvers staðar hafði ég heyrt að þátturinn þar sem Davíð Þór Jónsson var tekinn í bakaríið væri orðinn sígilt sjónvarpsefni. Ég smellti á hlekkinn og hóf að horfa á þáttinn.

Litla systir hafði haft rétt fyrir sér. Ég stóð mig að því að hlæja upphátt oft og mörgum sinnum. Minninginn um Rendell reyfarann var óðum að fjara út í huga mér. Þegar leið að lokum þáttarins var ég komin í býsna gott skap.

EN ÓGN OG SKELFING

Á svæðið mætti enginn annar en Geir Ólafsson og tók að serða plastfígúru á bílhúddi með hörmulegum tilþrifum. Ég hef hingað til haft ágætis mætur á Geir og heiðraði hann m.a. fyrir nokkrum árum með því að mæta í gervi hans á grímuball syngjandi My Way í falsettu fyrir alla sem ekki vildu heyra. Mál manna var að ég hefði náð að halda mér vel í karakter enda var ég með dragdrottningu upp á arminn allt kvöldið og náði að brjóta að minnsta kosti eitt glas. Það er ljóst að þetta geri ég þó aldrei aftur.

Næst mæti ég sem Davíð Þór, heltanaður með brúnni skósvertu frá Kivi.


Víóluskrímslið - takmörk fyrir hlutunum

föstudagur, mars 17, 2006

Forréttindi

Það eru forréttindi að vera Íslendingur í Finnlandi. Í dag tók gjaldkerinn í bankanum það upp hjá sjálfri sér að kenna mér að borga reikninga í hraðbankanum (á finnsku) svo ég þurfi ekki framar að greiða færslugjöld við slík tækifæri. Þegar ég þakkaði henni liðlegheitin svaraði hún því til að einu sinni þegar hún var lítil hafi hún átt íslenska pennavinkonu og að ég minnti á hana. Magnað.


Eurovision

Þeir sem halda að Íslendingar séu einir þjóða um að gefa skít í Eurovision í ár ættu að líta á framlag Finnlands til sömu keppni í ár.


Brúðkaupsþátturinn í Samalandi

Finnar eru eins og Íslendingar "framarlega" í gerð alls kyns raunveruleikasjónvarps. Þeir eru m.a með barþjónakeppni í beinni, hið sívinsæla fótboltalið FC Nördit (FC Nördar) og að sjálfsögðu brúðkaupsþátt á sínum snærum.

Í brúðkaupsþætti kvöldsins var sýnt frá heljarinnar brúðkaupi norður í Samalandi þar sem 31 eins árs hreindýrabóndi og einstæð móðir gekk í það heilaga með 19 ára skógarhöggsmanni. Skötuhjúin keyptu hringana í póstkröfu, létu ömmu brúðarinnar sauma á sig nýja þjóðbúninga og buðu svo upp á hreindýrasteik, öl og karaoke í tjaldi á skólalóð þorpsins. Gleðin var ósvikin.


Víóluskrímslið - Nörd

fimmtudagur, mars 16, 2006

Bless her

Þau stórtíðindi bárust mér í gær að herinn væri á leiðinni burt. Það þótti mér gott að heyra. Samband mitt við herinn hefur aldrei verið gott enda lærði ég að segja "Ísland úr Nató, herinn burt" áður en ég lærði að fara með faðirvorið. Ekki síst hermannanna vegna.

Í hvert sinn sem ég og mín fjölskylda keyrðum fram hjá herstöðinni á leið út á flugvöll eða í sunnudagsbíltúr til Sandgerðis virti ég fyrir mér vistarverur hermannanna og vorkenndi veslings mönnunum að þurfa að hírast þar fyrir innan allan gaddavírinn. Einu sinni þegar við pabbi vorum að keyra mömmu út á flugvöll ákváðum við á bakaleiðinni að renna upp að vallargirðingunni og kíkja á gettóið fyrir innan. Við vorum fljótt stoppuð af af vopnuðum mönnum í einkennisbúningum. Enda vorum við á Lödunni og fúlskeggjaður faðir minn með þessa fínu loðhúfu á hausnum.

Meðan ég vann enn við afgreiðslustörf í fordyri helvítis IKEA komu af og til heilu hjarðirnar af húsmæðrum af vellinum þangað í innkaupaferðir. Þær litu allar eins út, feitlagnar, ljóshærðar með permanent og bleikan varalit í prjónapeysum og niðurþröngum gallabuxum sem föðmuðu á þeim umfangsmikla bakhlutana. Einu sinni seldi ég einni þeirra 100 snaga í barnaherbergi. Hvað hún hefur ætlað að gera við þá er mér ráðgáta enn í dag. Kannski fólk verði svona þegar það fær aldrei að fara út.

Þó mér hafi aldrei verið vel við veru bandaríska hersins á Íslandi og vorkennt þeim fjöldamörgu vitleysingum sem þar hafa þurft að þreyja Þorrann og Góuna þar til þeir misstu vitið og fóru að drepa hver annan, veldur eitt mér þó áhyggjum. Þegar herinn fer tekur hann með sér allt sitt hafurtask, og þar með talið þyrlurnar. Það eru slæmar fréttir fyrir Íslendinga, sem eiga eins og er enga starfhæfa þyrlu. Eigi Íslendingar að geta staðið almennilega að björgunarstarfi á Íslandi verður að vera til þyrla í lagi og helst tvær. Annars geta menn farið að biðja fyrir sér. Það er ekki hægt um vik að sækja veika menn og slasaða upp á hálendi eða út á sjó án þess að hafa yfir slíku flygildi að ráða. Hvað þá ef menn lenda í sjálfheldu vegna náttúruhamfara og nóg er af þeim á Íslandi. Fer ekki annars að koma Kötlugos? Pant ekki standa uppi á Pétursey með jökulhlaup og öskufall allt um kring - og engin björgunarþyrla í lagi í landinu.

Ef ég hef skilið fréttirnar rétt geta Íslendingar leitað á náðir þyrlusveitar hersins í eitt túristasumar í viðbót. Hitt er svo annað mál að eftir það verðum við að fara að sjá um okkur sjálf. Það er alltof langt að sækja þyrlur til Danmerkur þegar menn eru að krókna úr kulda niðri í jökulsprungu.


Víóluskrímslið - bless Wendy´s

þriðjudagur, mars 14, 2006

Akkilesarhæll

Síðan á laugardag hefur mér liðið eitthvað undarlega í hægri fætinum. Eftir að hafa lýst vandanum fyrir Tóta með hjálp alnetsins og hann fengið mig til að fremja ýmsar leikfimikúnstir í gegnum símann kvað hann upp úrskurð þess efnis að ég væri líklegast tognuð í hægri hásininni.

Það finnst mér frámunalega hallærislegt. Ég og mín fjölskylda erum þó engan veginn ókunnug því að lenda í hallærislegum smáslysum. Sjúkraskráin okkar niðri á Slysó er án efa eitt fyndnasta plagg sem til er á íslensku. Þar má lesa um týndar smátölur djúpt í nösum lítilla barna, títuprjón í stórutá fjölskyldufeðra, tognaðar iljar sem hindra mæður í að ganga upp stiga, tognaðan háls stórusystur eftir kílómeters langa byltu niður Gilið á skíðasvæðinu í Bláfjöllum og hálfafskorna fingur eftir að ónefnd litlasystir reyndi að skera sér rófu alveg sjálf.

Tognuð hásin passar akkúrat inn í þessa fáránlegu upptalningu.

Samkvæmt sérlegu læknanemaráði ætti ég að taka því rólega næstu daga og vikur og gæta þess að reyna ekki of mikið á akkilesarhælinn. Auk þess þarf ég að eyða peningum (sem ég á ekki lengur eftir gengisfellinguna) í lága skó sem ekki nuddast við hásinina. Það finnst mér satt að segja heldur blóðugt. Þegar ég vaknaði í morgun og mundi eftir fyrirætluðum skókaupum fór ég næstum því í vont skap. Það rann þó fljótt af mér eftir að ég setti á barnaplötu með M.A. Numminen og barnakórnum hans (sem syngur tandurhreint, öfugt við alla aðra barnaplötukóra heimsins) og hitaði mér fullan ketil af sterku tei. Maður þarf ekki að æsa sig yfir svona smámunum.

Þó veldur það mér nokkrum áhyggjum að ég get ekki með nokkru móti áttað mig á því hvernig ég fór að þessu.


Víóluskrímslið - hálf móbílt

sunnudagur, mars 12, 2006

Framtíðarsýn

Á mannamótum þar sem samankomnir eru Íslendingar búsettir í útlöndum verður mönnum oft tíðrætt um ástand þjóðmála á Íslandi. Sem von er. Íslendingar sem dvalist hafa lengi erlendis sjá Ísland oft í hillingum. Þeir Íslendingar sem fylgjast með fréttum að heiman eru þó yfirleitt fljótir að losna við þá draumsýn.

Það sem af er minni dvöl fjarri heimahögum held ég að ég hafi aldrei tekið þátt í jákvæðum samræðum um það efni. Menn virðast yfirleitt sammála um að allt sé að fara til fjandans á Íslandi. Ungt fólk hugsar til þess með hryllingi að flytja heim í brjálæðislegt neyslukapphlaupið að námi loknu á meðan þeir sem eldri eru gráta týnt sakleysi fjallkonunnar. Menn velta fyrir sér forgangsröðun íslenskra stjórnvalda í heilbrigðis og menntamálum, auðsöfnun og græðgi í viðskiptalífinu, skuldasöfnun almennings og eilífu stressinu sem virðist vera að drepa allt og alla. Oft finnst mönnum það að fara heim í frí eins og að sogast inn í geðveikislega hringiðu sem sýgur úr manni allan mátt. Nýjustu fréttir að heiman eru oft gerðar að umtalsefni. Síðustu fréttir af fyrirhuguðu álmusteri í Eyjafirði og mögulegri einkavæðingu vatnsveitu á Íslandi hleyptu illu blóði í marga, þar á meðal mig. Gengisfelling krónunnar stefnir í að kosta marga fátæka námsmenn sem fá námslán sín greidd í íslenskum krónum stórfé. Þær fréttir urðu heldur ekki til þess að gleðja marga.

Íslendingar sem lengi hafa dvalist erlendis lýsa einkavæðingarfylleríinu á Íslandi sem svo að Íslendingar reyni aldrei neitt nema það hafi örugglega mistekist annars staðar.

Samt þykir mönnum vænt um landið sitt. Þeir gæta þess að tala fallega íslensku og tala um sögu Íslands og náttúru þess af miklu stolti. Það er kannski þess vegna sem svartsýnin heltekur þá þegar rætt er um íslensk þjóðmál. Landið sjálft er nefnilega stórkostlegt. Það eru íslensk stjórnvöld sem eru að fara með það til fjandans.

Ég er ekki ofbeldishneigð manneskja að eðlisfari. Ríkisstjórn Íslands og aðrir ráðamenn mega prísa sig sæla fyrir það. Ég myndi nefnilega brenna mun fleira en fána kæmist ég í tæri við það fólk sem er að skemma framtíðina fyrir mér, börnum mínum og barnabörnum. Ekki vegna þess að það myndi breyta nokkrum sköpuðum hlut.

Mér myndi bara líða miklu betur á eftir.


Víóluskrímslið - bálreitt

laugardagur, mars 11, 2006

Bekkjarbræður mínir

Í gær hélt kennarinn minn hóptíma fyrir bekkinn sinn. Við mættum sex og spiluðum hvert fyrir annað. Það gekk ágætlega, ekki síst eftir að versti glímuskjálftinn var farinn.

Eftir tímann fengu allir þá hugmynd samtímis að fara á hverfiskrána Meritahti og fá okkur einn öl. Það gerðum við. Eftir skamma stund voru allir komnir í mikið stuð. Sérstaklega bekkjarbræður mínir.

Um ellefuleytið tóku allar stelpurnar nema ég þá skynsamlegu ákvörðun að tygja sig heim enda sporvagninn nánast hættur að ganga. Ég ákvað hins vegar að verða eftir með piltunum. Eftir því sem leið á kvöldið og bjórunum fjölgaði urðu samræðurnar sífellt súrrealískari. Við veltum fyrir okkur mikilvægum hlutum eins og hvers vegna fólk af suðrænum slóðum er loðnara en fólk af norrænum uppruna, hvort hægt sé að búa til mannalýsi, hvort allir Svíar væru með hring í hægra eyra, hvers vegna finnsk júróvisjónlög enda alltaf í síðasta sæti og hvort nauðsynlegra sé að geta séð á sér tærnar eða kynfærin yfir ístruna.

Eftir miðnætti skiptu piltarnir yfir í viskí. Þá ákvað ég að fara heim.

Þeir kvöddu mig með miklum tilþrifum og sögðust hlakka til næsta hóptíma. Ég líka. Þetta eru öndvegispiltar.

Víóluskrímslið - andleg auðgun

miðvikudagur, mars 08, 2006

Túristapakkinn

Um helgina gerði Annegret vinkona mín sér lítið fyrir og brá sér í 4 daga heimsókn til Helsinki. Við gerðum okkur margt til skemmtunar, fórum í stórgott Íslendingapartí þar sem íslenskt góðgæti var á boðstólum, í nektarsund í sundlauginni við Georgsgötu (Yrjönkatu), magnaða viðarsánu þar sem ég flengdi furðulostna Annegret með birkivendi, í göngu um miðbæinn og á ísilagðri höfninni, á tónleika, á söfn, á traktorabarinn Zetor og í dagsferð út í virkið Suomenlinna sem nú er á kafi í snjó.

Það var mikill sprettur að ná þessum hápunktum Helsinki á svo fáum dögum með fullum skóla - auk þess sem þessi listi er alls ekki tæmandi. Við náðum til dæmis ekki að fara á þjóðminjasafnið eða á Bar Moskva. Það bíður betri tíma - og næsta gests.

Hver er til?

Víóluskrímslið - skemmtanastjóri

föstudagur, mars 03, 2006

Finnska melankólían

Finnar hafa orð á sér fyrir að vera upp til hópa fáorðir þunglyndir alkóhólistar. Ég bar þetta undir nokkra hérlenda kollega mína þar sem við sátum yfir ölglasi síðastliðið þriðjudagskvöld. Þeim fannst finnskri þjóðarsál ansi vel lýst á þennan hátt. Spurðu mig svo til baka hvort Íslendingar væru ekki alveg eins. Nei, sagði ég. Íslendingar geta aldrei haldið kjafti.

Það fannst þeim fyndið.


Víóluskrímslið - Íslandi til skammar á alþjóðavettvangi

miðvikudagur, mars 01, 2006

Hryllingsmyndir, taka 2

Á sunnudaginn var enn hryllingsmyndin enn í sjónvarpinu. Finnar töpuðu fyrir Svíum í úrslitaleik um ólympíugullið í íshokki í milljónasta sinn.

Í Finnlandi upplifa menn ósigur gegn Svíum sterkar en gegn öðrum þjóðum.

Eins og gefur að skilja var því ekki mikil gleði í mönnum eftir leikinn. Ég held ég sleppi því alveg að bregða fyrir mig skandinavísku næstu vikur og mánuði.


Bollur

Í gær héldu Finnar upp á bolludaginn. Það var mér mikið gleðiefni. Ég fékk væna rjómabollu með hindberjasultu í ár.


Bláa lónið

Á strætóleiðinni minni niður í bæ gefur að líta gríðarstórt flettiskilti. Á það hefur undanfarnar vikur verið klínt auglýsingu frá Icelandair með fáklæddri kevenpersónu að baða sig í Bláa lóninu. Meðfylgjandi er auglýsingatextinn "Islanti 35 C"

Ég ætla rétt að vona að þar eigi þeir við hitastigið á vatninu.


Víóluskrímslið - öl á þriðjudögum

laugardagur, febrúar 25, 2006

Hryllingsmyndir

Ég horfði á tvær hryllingsmyndir í kvöld, hver annarri hræðilegri. Sú fyrri var dýralífsmynd um risastórar drápsköngulær sem fela sig undir klósettsetum og bíta mann í rassinn þegar maður fer á klóið.

Sú seinni var heimildamynd um heimavinnandi húsmæður og óð smábörn.

Köngulóarmyndin fannst mér öllu yndislegri.


Víóluskrímslið - hrollur

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Yes sir, ich kann boogie


Í morgun fór ég með Önnu og Matiasi á vísindasafn fyrir börn þar sem hægt er að leika sér í öllum sýningargripunum. Það var gaman. Svo fór ég í tíma og kennarinn minn var ánægð. Það var enn betra. Eftir tímann fór ég í bæinn og keypti mér vondan kebab og gekk óvart á glerhurðina á skyndibitastaðnum. Það jók enn á gleði mína og annarra sem þar voru staddir. Við tók stutt stopp á bókasafninu þar sem ég fékk lánaðar nokkrar plötur með herra M.A Numminen. Nú sit ég heima í fermetrunum 44 og hugsa til allra þeirra sem ég myndi vilja hafa inni í stofu hjá mér einmitt núna að hlusta á herra Numminen með gott í glasi. Þeir eru ófáir.

Fyrst ég er í svona meyru skapi er tilvalið að nota tækifærið og gera nokkuð sem ég geri ekki að staðaldri og mun líklegast aldrei gera aftur.

TAKA ÞÁTT Í BLOGGLEIK. (trommusláttur í fjarska....)

Fjögur störf sem ég hef unnið við (í réttri tímaröð)
Trjáplantari í víðáttum Heiðmerkur, kassadama í IKEA (aldrei aftur), stuðningsfulltrúi, tónlistarkennari.

Fjórir staðir sem ég hef búið á
Reykjavík, Goirle (skítapleis, ekki til á korti), Tilburg, Helsinki.

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég nenni að horfa á
Ehhh. Öhhhhh. Heimildamyndir, þættir með David Attenborough og dýrunum hans, múmínálfarnir, fréttir.

Fjórar bækur sem ég les aftur og aftur
Nafn Rósarinnar (Umberto Eco), Íslandsklukkan (H.K.Laxness), Njála (höf. óþekktur), Mómó (Michael Ende)

Fjórir staðir sem ég hef ferðast til
Kanada, Kína, Þýskaland, Frakkland

Fjórir vefir sem ég skoða mest
ruv.is, mbl.is, kbbanki.is, gmail.com

Fjórar uppáhalds matartegundir
Kjötsúpa, pönnukökur, blóðug nautasteik, harðfiskur.

Fjórir geisladískar sem rúlla þessa dagana
Boy með U2, Hrekkjusvínaplatan, Dägä Dägä með M.A. Numminen og Sinfónía nr. 5 eftir Mahler.


Þá er það búið. Í græjunum gólar M.A Numminen Fata Morgana. Ég ætla að fá mér sardínur í tómatsósu í kvöldmat.


Víóluskrímslið - sentimentall jörnei

mánudagur, febrúar 20, 2006

Kornflex

Þegar ég var sjö ára hringdi ég í Þjóðarsálina á Rás2 og kvartaði yfir sjónvarpsauglýsingu sem auglýsti Kelloggs kornflögur. Auglýsingin er mér enn í fersku minni. Hún gekk út á það að með því að éta Kelloggs kornflögur upp á hvern dag öðlaðist maður gífurlegt sjálfstraust og ofurkrafta - og ynni sigur á þeim sem legðu mann í einelti í skólanum. Ég vissi hins vegar af reynslu að til þess þyrfti annað og meira til en kornflöguát. Mér fannst það heilög skylda mín að afhjúpa þennan blekkingavef.

Auglýsingin var tekin af dagskrá stuttu eftir að ég hringdi í Þjóðarsálina og lýsti því yfir að maður "yrði sko ekkert gáfaðri eða betri í handbolta af því að borða kornflex, það væri bara bull og þetta væri asnaleg auglýsing." Mér fannst ég hafa unnið stórsigur á markaðsvöldunum.

Segið svo að maður hafi engin völd í þjóðfélaginu.


Víóluskrímslið - jatkuu

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Olet mitä syöt*

Í finnskutímanum í kvöld lærði geðklofalegi skiptinemabekkurinn um finnskan mat og matarheiti á finnsku. Kennarinn notaði tækifærið og kenndi okkur ýmis spurnarorð í leiðinni. Tímanum lauk á því að hún gekk á röðina og spurði hvað menn borðuðu í morgunmat.

Lengi vel heyrðist ekkert nema hafragrautur, morgunkorn, ristað brauð, ávextir og múslí en þegar röðin kom að bandarísku hjúkrunarnemunum að lýsa sínum morgunverðarvenjum kom annað hljóð í strokkinn.

Eggjahræru, steiktar pylsur, beikon, pönnukökur, vöfflur með hlynsírópi og steikt eggjabrauð með sykri kvöddust þær borða í morgunmat á hverjum degi og líka vel.

Þó þær séu flestar með afbrigðum mjúkar og móðurlegar í vextinum á ég erfitt með að trúa þessu. Það að ná að útbúa þvílíkan morgunmat og koma honum ofanísig áður en skólinn byrjar klukkan átta er ekkert smá mál. Maður þyrfti að fara á fætur ekki seinna en sex.

Ég trúi því hreinlega ekki að fólk fórni dýrmætum svefni fyrir beikon að morgni dags.


Víóluskrímslið - svefnpurka


*Þú ert það sem þú borðar

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Leyndardómurinn um horfnu fitukúluna

Fyrir nokkrum vikum síðan, þegar frostið náði ennþá 20 stigum á daginn og 25 á nóttunni, keypti ég fitukúlur í stórmarkaðnum til að gleðja smáfuglana í garðinum heima hjá fermetrunum 44. Fyrir þá sem ekki vita eru fitukúlur gerðar úr tólg sem búið er að blanda í alls kyns fræi og setja í net. Auðvelt er að hengja þessar kúlur í tré eða annars staðar þar sem fuglar himinsins gera óáreittir nartað í þær án þess að hafa áhyggjur af köttum eða smákrökkum í leit að ódýrri skemmtun. Ég var afskaplega ánægð með þessi kaup og skellti þegar við heimkomuna upp tveimur kúlum í stærsta tréð í garðinum.

Eftir nokkra daga var ég búin að koma mér upp dálitlum hópi vængjaðra fastagesta sem kunnu vel að meta fitukúlurnar. Það leið því ekki á löngu áður en ég þurfti að taka niður tóm netin og hengja nýjar kúlur upp í tré. Á morgnana athugaði ég spennt hvort ég sæi fugl við eina fitukúluna. Mér leið eins og krakka að kíkja í skóinn sinn á jólum.

Í gær þegar ég var á leiðinni í skólann tók ég eftir því að netin voru tóm. Ég frestaði því strætóferð um nokkrar mínútur og skrapp upp til að ná í nýjan skammt af kúlum. Ég hengdi þær í tréð og tók eftir því mér til ánægju að fuglarnir í trénu voru hættir að fljúga upp þegar þeir sáu mig koma. Ég fór svo í skólann í sólskinsskapi.

Þegar ég kom heim leit ég upp í tré eins og ég er vön. Ógn og skelfing! Önnur fitukúlan var HORFIN. Ég leitaði af mér allan grun í snjónum fyrir neðan tréð en fann ekki neitt. Ólíklegt fannst mér að smáfuglarnir hefðu étið heila kúlu á nokkrum klukkustundum og netið með. Það kom því aðeins eitt til greina. Einhver hefur STOLIÐ FITUKÚLUNNI.

Ég er enn að velta fyrir mér mögulegum ástæðum þess að fólk stelur illalyktandi tólgarbolta í neti sem fuglar hafa kroppað í. Kannski hefur einhver nágranninn áhyggjur af því að ég sé að hæna fugla að húsinu á þessum síðustu og verstu tímum fuglaflensu. Kannski hefur einhver stolið henni til að hengja upp á svölunum hjá sér. Mér finnst ólíklegt að einhver hafi stolið henni til að éta hana en þó getur maður aldrei útilokað neitt.

Ég held þó ótrauð mínu striki. Á meðan ég bý hér í Talontie skulu hanga fitukúlur í trjánum handa fiðurfénu. Ég er farin út í búð.


Víóluskrímslið - gleymum ekki smáfuglunum