Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, maí 23, 2007

Hall of fame

Eftir spennuþrungna bið er loks komið í ljós hverjir gegna munu ráðherraembættum á næsta kjörtímabili. Samfylking teflir fram þremur konum og jafnmörgum körlum sem rímar vel við stefnu flokksins í jafnréttismálum.
Í ráðherrahópi Sjálfstæðismanna er aðeins ein kona. Karlmennirnir fimm halda uppi heiðri firrtra-miðaldra-viskíkarla-með-bindi með sóma. Verst að þeir eru ekki í neinu sambandi við raunveruleika vinnandi fólks í landinu. Þeir eiga að minnsta kosti ekki á hættu að þeirra kvóti verði seldur úr byggðarlaginu.
Einnig vakti athygli að Samfylkingin tekur við flestum þeim ráðuneytum sem styrr hefur staðið um á undanförnum kjörtímabilum. Viðskipta og iðnaðarráðuneyti auk umhverfisráðuneytis hafa ekki talist friðsamir vinnustaðir hingað til. Nýtt velferðarráðuneyti leggst auk þess á herðar Samfylkingar. Það verður skemmtilegt verkefni að moppa upp skítinn eftir drulluslag fráfarandi ríkisstjórnar í þeim málum.
Ég bíð spennt eftir málefnasamningnum.

Víóluskrímslið - tilbúið með kústinn

þriðjudagur, maí 15, 2007

Bananalýðveldi nr 1

Einu sinni sá ég veggjakrot í Hollandi sem var á þessa leið:

Ef kosningar breyttu einhverju væri eflaust búið að banna þær fyrir löngu.

Þegar ég komst að því á sunnudagsmorgun að ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknar héldi eins manns meirihluta þrátt fyrir að vera með minnihluta atkvæða á bak við sig varð mér hugsað til þessarar staðhæfingar. Litla systir skrýðist eflaust BANANA REPUBLIC NO. 1 bolnum sínum Íslandi til heiðurs þessa dagana.

Ég gerði mér ferð suður um síðastliðna helgi til þess að kjósa. Auk þess fórum við dr. Tót á tangónámskeið þar sem við komumst að því að hvorugu okkar voru gefnar neitt sérstaklega þokkafullar hreyfingar í vöggugjöf. Í mínu tilfelli vissi ég reyndar allt um það. Risessan gladdi augu og eyru og kosninganóttinni var eytt heima hjá félaga Stefáni og frú, þar sem við fylgdumst skjálfandi með stjórninni og Guðmundi Steingrímssyni falla og detta inn á víxl.

Nú taka við dagar óvissu fyrir íslenska þjóð. Á maður að fara að safna fúleggjum til að vera við öllu búinn?

Víóluskrímslið - á nálum

fimmtudagur, maí 03, 2007

Miðaldra hressileiki

Sjálfstæðisflokkurinn á greinilega fullt af peningum. Að minnsta kosti hefur hann keypt upp for- og baksíður í öllum héraðsblöðum hér um slóðir til þess að auglýsa sig. Á aðal-auglýsingamyndinni sést listi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í norð-vestur kjördæmi. Helmingur fólksins á myndinni er gráhærðir stútungskarlar í jakkafötum. Hinn helmingurinn er myndarlegar, vel til hafðar konur sem líta ekki út fyrir að vera meira en á fertugsaldri.
Einn skólaliðanna í Varmahlíðarskóla hafði á orði í morgun að myndin liti út eins og Viagra auglýsing.
Þá er nú fokið í flest skjól.
Bohemian Rhapsody
Í gærkvöldi var ég farþegi í bíl þar sem kveikt var á FM 95,7. Ég hlusta aldrei á FM 95,7. Í gær var ég minnt á ástæðuna fyrir því.
R&B rassadilli-raddflúrsútgáfa af Bohemian Rhapsody hljómaði þar á öldum ljósvakans, mér til mikillar hrellingar.
Suma hluti á bara að láta í friði.
Víóluskrímslið - verndum snilldina