Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, október 23, 2007

You cannot become what you already are...
(þú getur ekki orðið það sem þú ert þegar)


Þegar ég bjó í Hollandi í Húsi hinna töfrandi lita lauk deginum oftar en ekki á því að fjölþjóðlega fjölskyldan safnaðist saman í ormétnu eldhúsinu og gerði upp daginn. Þetta voru góðar stundir og léttu okkur lífið enda vorum við öll útlagar í ókunnu landi.

Oftar en ekki kom einhver við í súpermarkaðnum á leiðinni heim og kippti með sér flösku af ódýru víni sem við deildum bróðurlega. Oftast komumst við þó að þeirri gáfulegu niðurstöðu að ein flaska væri ekki nóg og því urðu flöskurnar oftast tvær.

Þegar þessu hafði farið fram í nokkurn tíma sátum við systurnar einu sinni sem oftar saman við eldhúsborðið með rautt 2 evra glundur í glasi og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Luis bróðir kom heim og leiddi hjólið sitt gegnum eldhúsið með miklu brambolti. Þá sneri Lára sér að honum og spurði kankvíslega - enda orðin góðglöð af víninu - Luis, erum við að verða að alkóhólistum hér á þessu heimili?

Luis sneri sér við og svaraði: You cannot become what you already are. Svo dröslaði hann hjólinu út í bakgarð.

Það sló þögn á borðið. Það var eins og við gerðum okkur grein fyrir því í fyrsta sinn að það er ekki normalt að detta í það á hverjum degi. Næsta dag fórum við í Simon Levelt og birgðum okkur upp af tei. Samverustundirnar urðu ekkert verri fyrir vikið.

Í Hollandi er aðgengi að áfengi mun meira en hér og er vín og bjór selt jöfnum höndum í stórmörkuðum. Þar er þó aðeins um að ræða takmarkað úrval og eðalvín eru þar ekki á hverju strái. Mest fer fyrir ódýrum vínum af ýmsu tagi og svo bjór. Það að geta kippt með sér flösku af víni með daglegum innkaupum er óneitanlega þægilegt en það leiðir líka til þess að maður drekkur oftar og meira í einu. Það kemur að því að manni hættir að finnast það sniðugt enda er áfengi eiturlyf - þó það sé löglegt.

Mér þykir afskaplega vænt um lifrina í mér og helli mig ekki fulla á hverjum degi. Þess vegna finnst mér ekkert að því að þurfa að fara í sérverslun til þess að ná mér í rauðvín til hátíðabrigða með steikinni. Í vínbúðunum er gott úrval, ágætis þjónusta og opnunartíminn þess eðlis að jafnvel fólk eins og ég sem vinnur steiktan vinnutíma á góðan séns á að komast í ríkið. Auk þess er ég ekkert spennt fyrir Euroshopper bjórnum sem Bónus ætlar að flytja inn. Hvað þá Krónubjór eða Hagkaupsvíni.

Forsvarsmenn frumvarpsins góða ættu kannski að velta þessu fyrir sér betur en þeir hafa gert. Sérstaklega Sigurður Kári - en hann er kannski bara æstur í að missa prófið aftur.


Víóluskrímslið - lifum, lærum og njótum

þriðjudagur, október 09, 2007

Veisluhöld

Undanfarnar tvær helgar hafa einkennst af miklum veisluhöldum. Þessar veislur voru báðar með afbrigðum skemmtilegar þótt ólíkar væru.

Sú fyrri var síbúin brúðkaupsveisla þeirra Stefáns félaga míns og hans frómu ektakvinnu Guðrúnar. Þar var nóg að bíta og brenna og skemmtiatriði á hverju strái. Hið nýstofnaða tangóband Finlandia BigBand lék þar 3 lög fyrir dansi við mikinn fögnuð og fór dr. Tót þar á kostum á snerlinum. Hápunkti veislunnar var þó náð þegar brúðhjónin valhoppuðu í kringum veisluborðið við undirleik brúðarmarsins með kongaröð af kátum gestum á eftir sér. Svona eiga brúðkaup að vera!

Seinni veislan var villibráðarveisla sem við vinkonurnar Guðný og Sólrún lentum í fyrir slysni um helgina á ferðalagi okkar um Snæfellsnes. Þar borðuðum við sel og hval og fleira lostæti og stóð átið fram undir morgun. Þar hittum við lítinn hollenskan dreng sem kvaðst vinna þar á bóndabæ í grenndinni. Drengur sá hafði afar hollenskar hugmyndir um hlutverk kynjanna og átti bágt með að trúa því að til væru konur sem vildu og gætu verið fjárhagslega sjálfstæðar. Þegar hann rökstuddi þessa skoðun sína með því að vitna í hellisbúasamfélagið svaraði Guðný því til með setningu kvöldsins : "There is this thing called evolution, you know."

Næstu helgi á ég hins vegar ekki boð í neina veislu. Hvað gera bændur þá?

Þá held ég hana bara sjálf, sagði litla gula hænan. Hver vill koma í matarboð?

Víóluskrímslið - party on

miðvikudagur, október 03, 2007

Topp 5 mínus 1

Það er ýmislegt skemmtilegt við það að vera tónlistarkennari.

Til dæmis er afar notalegt að sitja heima einn dag í viku íklædd föðurlandi og lopapeysu drekkandi te í lítravís og undirbúa kennslu, útsetja námsefni, skrifa greinargerðir og meterslanga tölvupósta.

Það er líka svaka gaman þegar krakkarnir koma vel undirbúnir og þjóta í gegnum heimaverkefnin sín.

Það er fjör þegar krakkarnir standa sig vel á tónleikum og koma niður af sviðinu ljómandi af stolti.

Það er rosalega gaman þegar eitthvert barnanna sér ljósið og getur loksins gert eitthvað sem það hefur barist við í margar vikur.

Það er gaman að stjórna hljómsveit fullri af hressum krökkum, sjá þá vaxa með hverri raun og þroskast sem spilarar.

Þökk sé möppudýrum þessa lands er hins vegar ekki eins gaman að fá launaseðilinn sinn.


Víóluskrímslið - gaman i vinnunni